Hættu að telja hitaeiningar og borða eingöngu kál til að reyna að léttast. Því samkvæmt breskum sérfræðingi er rétta leiðin sú að borða osta, súkkulaði og drekka rauðvín.
Ekki neita þér um allt
Tim Spector, prófessor við King´s College London, segir að sú hugmynd sem við höfum um rétt mataræði sé röng. Og í staðinn fyrir að neita okkur sífellt um það sem okkur þykir gott ættum við frekar að gefa okkur tíma til þess að gæða okkur á því.
Það sem er á listanum hjá Tim er m.a. rauðvín, ostar, súkkulaði, kaffi, hnetur og mjólkurvörur.
Bakteríurnar í meltingarvegi
Þessar óhefðbundnu ráðleggingar byggir Tim á trú sinni á því að hið rétta mataræði snúist ekki um að telja hitaeiningar heldur um bakteríurnar í meltingarvegi okkar. Með því að borða réttu fæðuna ræktum við góðu bakteríurnar og með því höldum við okkur grönnum og heilbrigðum.
Tim bendir á að þeir sem borði ost reglulega þjáist síður af hjartasjúkdómum en þeir sem ekki neyta osts. Hann segir ógerilsneyddan ost vera eitt það besta sem við getum borðað þar sem þeir séu ein besta uppspretta heilbrigðra örvera og sveppa. Flestir ostar eru ógerilsneyddir og má nefna sem dæmi Parmesan, Camembert, Roquefort og Swiss Gruyére. Þá er jógúrt líka einstaklega gott fyrir þarmaflóruna.
Miðjarðarhafsbúar lifa lengur
Góð olía, hnetur og fræ eru líka mikilvægar fæðutegundir þar sem þær hafa góð áhrif á örverurnar í meltingarveginum. Þetta er talin ein ástæðan fyrir því að Miðjarðarhafsbúar lifa lengur en aðrir en þeirra fæða er rík af ólífuolíu, ostum, salati og rauðvíni.
Prófessorinn tekur líka fram að skyndibiti sé ekki æskilegur og sama megi segja um unna matvöru. Þetta snýst um að borða fjölbreytta og hreina fæðu.
Svo það er greinilega um að gera að njóta þess að fá sér rauðvín og osta – þótt ekki sé nema fyrir þarmaflóruna.