Konur um og yfir fimmtugt kvarta frekar en karlar á sama aldri yfir svefnleysi og svefnröskunum – en ákveðin óregla á svefni er algeng hjá konum á þessum aldri.
Einnig er ekki óalgengt að konur sem aldrei hefur heyrst í á nóttunni byrji á breytingaskeiði að hrjóta eins og tröll. Sumar konur geta ekki einu sinni sofið fyrir hrotunum í sjálfum sér og vakna oft á nóttu.
Þótt mörgum finnist það ekkert sérstaklega dömulegt að hrjóta er staðreyndin samt sú að dömur hrjóta líka.
Makinn ósofinn
Þar sem hrotur eru eitthvað alveg nýtt fyrir margar konur getur verið erfitt að sætta sig við það. Og auðvitað vilja sumar ekkert kannast við það að hrjóta en vakna engu að síður upp með andfælum við sjálfar sig um miðja nótt. Þess utan er það orðið slæmt þegar eiginmaðurinn kvartar yfir því að hann sé ósofinn af því konan hrjóti svo.
Ekki bara karlasjúkdómur
Konum sem eru of þungar og hreyfa sig lítið er hættara við slíkum svefnröskunum. Miklar hrotur geta líka bent til kæfisvefns, en hann getur verið hættulegur. Hrotur og kæfisvefn eru meira áberandi þegar sofið er á bakinu. Í kæfisvefni minnkar súrefnið í blóðinu og flutningur þess út í vefi líkamans, þar með talið til hjartans.
Talað hefur verið um kæfisvefn sem karlasjúkdóm en konur sem hafa gengið í gegnum tíðahvörf eru einnig í áhættuhópi sérstaklega ef þær hrjóta, eru of þungar og með of háan blóðþrýsting.
Þessi þrjú atriði gætu hjálpað
Margt breytist hjá konum með aldrinum og eflaust hefur það ekki hvarflað að neinni konu að hún myndi einhvern tímann hrjóta eins og tröllskessa svo undir tæki í öllu húsinu. En þetta er bara eitt af því sem tilheyrir því að eldast og lítið við þessu að gera.
Vissulega má reyna eitt og annað til að bæta svefninn en erfitt er að eiga við hroturnar.
Þessi þrjú atriði gætu samt hjálpað eitthvað
1. Að gæta þess að sofa ekki of mikið á bakinu.
2. Passa upp á þyngdina.
3. Og ekki drekka mikið áfengi fyrir svefninn.