Þetta þarftu að prófa því það er svo brjálæðislega gott að það nær engri átt!
Heitt djúpsteikt oreokex með vanilluís og volgri súkkulaðisósu er gjörsamlega galið gott kombó.
Djúpsteikt kexið minnir einna helst á blöndu af súkkulaðiköku og nýsteiktum kleinuhringjum, stökkt að utan og mjúkt að innan.
Það er hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit sem deilir hér með okkur þessari uppskrift.
Það sem þarf
- 2 ¼ dl mjólk
- 1 egg
- 2 tsk bragðdauf olía (ekki ólívuolía)
- 2 ¼ dl ameríkanskt pönnukökumix (keypt tilbúið í matvörubúðum)
- 1 Oreo kexpakki
- olía til að djúpsteikja í
- flórsykur
- vanilluís
- súkkulaðisósa
Aðferð
Blandið mjólk, eggi og olíu saman í skál og hrærið síðan pönnukökumixinu saman við.
Látið deigið standa í nokkrar mínútur.
Hitið djúpsteikingarpott (eða olíu í potti) í 180°.
Dýfið Oreo kexinu vel ofan í deigið og djúpsteikið nokkrar kökur í einu í um 2-3 mínútur – eða þar til þær hafa fengið fallegan lit og eru orðnar stökkar að utan.
Látið renna af þeim á eldhúspappír og berið síðan strax fram með ís, súkkulaðisósu og sigtið smá flórsykur yfir.
Súkkulaðisósa
- 1 dl sykur
- 1 dl kakó
- 1 dl rjómi
- 30 g smjör
Aðferð
Setjið allt í pott og látið suðuna koma varlega upp. Látið sjóða við lágan hita í 5 mínútur og hrærið reglulega í pottinum.
Leyfið sósunni að kólna aðeins og berið hana fram volga.