Söngkonan Diddú hefur yljað íslensku þjóðinni um hjartarætur með söng sínum og geislandi framkomu um árabil. Sumir fara einfaldlega í betra skap þegar þeir sjá þessa brosandi og jákvæðu konu.
Ótrúlegt en satt þá fagnar Diddú sextugsafmæli sínu í ár og af því tilefni gleður hún landann með afmælistónleikum í Hörpu. Þar verður farið yfir farsælan feril hennar undanfarin 40 ár.
Tvískiptir tónleikar
Diddú hefur víða komið við á ferli sínum og bera tónleikarnir merki þess. En þeir verða tvískiptir, þar sem söngkonan mun leggja í ævintýralega söngferð með áheyrendum og koma víða við. Í fyrri hluta tónleikanna mun Diddú syngja sígild lög og aríur sem eru henni hjartfólgnar ásamt sinfóníuhljómsveit undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar.
En síðari hluta tónleikanna vendir hún kvæði sínu í kross ásamt einvalaliði söngfélaga og hljóðfæraleikara og þá mun Eyþór Gunnarsson annast tónlistarstjórn. Þar munu þeir Egill Ólafsson, Valgeir Guðjónsson og Sigurður Bjóla Garðarsson stíga á stokk með henni sem hið goðsögulega Spilverk Þjóðanna. Einnig koma fram þau Ragnhildur Gísladóttir, Björgvin Halldórsson og bróðir hennar Páll Óskar.
Tónleikarnir verða í Hörpu sunnudaginn 13. september kl. 20:00 og eru enn örfáir lausir miðar.