Ég hef alltaf verið alveg ofboðslega mikil vöfflu kona og baka þær líklega nokkrum sinnum í viku. Mér finnst best ef áferðin á þeim er frekar stökk og þær mýkri að innan, einnig finnst mér gott ef þær eru aðeins í dekkri kantinum.
Nú bjóst ég alls ekki við því að þessi áferð gæti fengist með glútenfría brauðmixinu en vá, þetta kom stórkostlega á óvart. Þær voru jafnvel bara betri en þær sem ég geri með venjulegu hveiti. Svo stökkar en samt mjúkar, virkilega bragðgóðar.
Þetta mix er alveg frábær kostur og ég hlakka bara til að prófa mig áfram með það í fleiri uppskriftir.
Það sem þarf
5 dl fínt brauðmix frá Finax (Kornax)
2 tsk vínsteins lyftiduft
1/2 tsk matarsódi
1 msk vanillusykur
1/2 tsk salt
3 egg
1 dl Ab-mjólk
1 dl olía
3-4 dl mjólk
Aðferð
Blandið þurrefnum saman í skál.
Setjið eggin, Ab-mjólkina og olíuna því næst saman við auk smá slettu af mjólk og hrærið í miðjunni.
Bætið mjólkinni smám saman við þar til þið eruð búin að setja ca. 3 dl út í og látið deigið þá bíða í ca. 5 mínútur.
Deigið þykknar þegar það er látið bíða og gott að bæta smá mjólk við til viðbótar.
Þessi uppskrift gaf um 10 frekar stórar vöfflur.
Mér finnst gott að setja Nutella og smá rjómaslettur á mínar en þær eru auðvitað góðar með öllu.
Þær eru örugglega líka fínar í stað brauðs og þá má bara sleppa vanillusykrinum – og nota síðan bara smjör og ost til dæmis.
Valgerður Gréta
Eldhúsið hennar Völlu