Jólaundirbúningurinn er hafinn á mínu heimili og smákökubakstur kominn á skrið. Enda styttist í aðventu og smákökur eru til þess að borða á aðventunni.
Nýjar rosalega góðar kökur
Það alltaf jafn gaman að prófa eitthvað nýtt og þessar kökur hér eru alveg svakalega góðar. Ég er virkilega ánægð með þær – enda slógu þær í gegn hjá fjölskyldumeðlimum.
Þegar deigið er bragðgott þá veit það á gott. Já ég smakkaði deigið, bara gat ekki á mér setið. En það er einhvern veginn eins og karamella á bragðið. Það er brúnaða smjörið í þeim sem gerir þetta sérstaka bragð. Rosalega gott!
Gætið þess þegar þið bakið þessar kökur að hafa þær ekki of smáar heldur frekar í stærri kantinum.
Ég lofa að þið verðið svo sannarlega ekki svikin af þessum. Fyrsti skammtur af þessum er næstum búinn hjá mér og þær verða klárlega bakaðar aftur.
Það sem þarf
1 bolli (eða tæp 230 gr) ósaltað smjör
2 bollar hveiti
1 tsk matarsódi
¾ tsk salt
1 bolli dökkur púðursykur
1/3 bolli sykur
2 stór egg, við stofuhita
2 tsk vanilludropar
1 ½ bolli Nói Siríus suðusúkkulaðidropar
2 plötur Daim súkkulaði, skorið í bita (ekki of smátt)
sjávarsalt í flögum
Aðferð
Setjið smjörið í pott og bræðið við miðlungshita. Látið smjörið freyða og brúnast, þetta getur tekið 5 til 10 mínútur. Þegar smjörið er orðið brúnt hellið því þá í hrærivélaskál og látið aðeins kólna.
Blandið hveiti, matarsóda og salti saman í skál.
Setjið púðursykur og sykur út í skálina með brúnaða smjörinu. Hrærið varlega saman þar til þetta hefur blandast alveg, tekur um 1 mínútu.
Bætið eggjum og vanilludropum út í skálina. Hrærið í um hálfa til 1 mínútu eða þar til blandan þykknar og er orðin ljós að lit.
Blandið þurrefnunum varlega saman við og hrærið lítillega þar til allt hefur blandast saman.
Setjið allt súkkulaðið út í skálina og blandið því saman við deigið með sleif eða sleikju.
Látið deigið standa í 15 til 30 mínútur áður en þið bakið það.
Hitið ofninn að 190 gráðum.
Setjið smjörpappír í ofnskúffur.
Mótið kúlur úr deiginu, en það er mjög gott að nota ísskeið til þess því kökurnar eiga ekki að vera of litlar.
Raðið kúlunum á ofnskúffurnar og gætið þess að hafa nóg bil á milli þeirra. Alls ekki þrýsta á kúlurnar eða fletja þær út.
Stráið sjávarsalti yfir kúlurnar.
Bakið þar til kökurnar eru orðnar gylltar að lita eða um 8 til 11 mínútur. Fer eftir því hvernig ofninn er en mér fannst nóg að baka þær í rúmlega 8 mínútur. Gætið þess að brenna þær ekki.
Takið þær út úr ofninum og leyfið þeim að kólna á plötunni í nokkrar mínútur. Færið þær síðan yfir á grind og látið kólna alveg.
Ég fékk um 30 kökur úr deiginu.
Njótið!