Haframjölskökur eru alltaf góðar og þessi hérna er alveg einstaklega girnileg. Og það sem gerir hana enn betri er að uppskriftin er alveg einstaklega einföld.
Það er hún Lilja Katrín á blaka.is sem gaf okkur uppskriftina að þessari dásamlega einföldu karamelluköku.
Þessi er tilvalin í helgarkaffið.
Það sem þarf
Kakan
1 ¼ bolli púðursykur
280 gr mjúkt smjör
2 bollar Kornax hveiti
1 tsk matarsdói
1 tsk salt
2 bollar haframjöl
Súkkulaðilag
1 ½ bolli dökkt súkkulaði (grófsaxað)
Karamellusósa
1 poki Freyju karamellur
¼ til ½ bolli rjómi
3 msk Kornax hveiti
sjávarsalt
Aðferð
Kakan
Hitið ofninn í 180°C og takið til ílangt form, ég mæli með 22×33 sentímetra. Klæðið það með smjörpappír.
Blandið smjöri og púðursykri vel saman. Bætið hveitinu við, síðan matarsóda og salti og blandið vel saman.
Blandið haframjölinu við þar til allt er blandað saman en passið ykkur að blanda ekki of lengi (Lilju Katrínu fannst betra að blanda haframjölinu saman við með höndunum).
Þrýstið helmingnum af blöndunni í botninn á forminu og bakið í 10 mínútur.
Súkkulaðilag
Stráið súkkulaðinu yfir botninn um leið og hann kemur úr ofninum.
Karamellusósa
Setjið 1/4 bolla af rjóma og Freyju-karamellurnar í skál og hitið í örbylgjuofni þar til allt er bráðið saman, en bara 30 sekúndur í einu. Gott er að hræra eftir hverjar 30 sekúndur. Ef þið þurfið meiri rjóma þá bara bætið þið honum við.
Hrærið 3 msk af hveiti saman við karamellusósuna til að þykkja hana aðeins. Blandið síðan smá sjávarsalti saman við sósuna.
Hellið karamellusósunni yfir súkkulaðibitana og myljið síðan restina af kökudeiginu yfir sósuna og reynið að hylja hana alla.
Bakið í 20-25 mínútur og leyfið kökunni að kólna áður en þið skerið hana í sneiðar.
jona@kokteill.is