Þetta er alveg dásamlegur haustréttur – bökuð epli með höfrum og karamellu. Frábær sem eftirréttur, í klúbbinn eða sem góðgæti á sunnudegi. Passaðu bara að gera nógu mikið því þetta er nokkuð sem klárast fljótt.
Uppskriftin miðast við vegan og glútenlaust en fyrir þá sem vilja má nota bæði hveiti og smjör.
Bættu þessu ljúfmeti í uppskriftasafnið því þetta er réttur sem klárast á núll einni.
Það sem þarf
Fyrir karamelluedikið
4 bollar eplaedik
1/3 bolla hlynsíróp
1 msk kókosolía (má líka nota smjör)
Fyllingin
6 bollar flysjuð og niðurskorin epli
½ bolli karamelluedik
½ tsk kanill
örlítið salt
Og ofan á
1 bolli hafrar
½ bolli niðurskornar pekanhnetur
¼ bolli möndlumjöl (má líka nota hveiti)
3 msk kókosolía (má líka nota smjör)
3 – 4 msk karamelluedik
1 tsk vanilludropar
½ tsk kanill
¼ tsk salt
Aðferð
Setjið eplaedik í pott og hitið að suðu við miðlungs hita.
Lækkið hitann aðeins og látið edikið sjóða niður. Þegar það hefur soðið niður um cirka helming bætið þá sírópi og kókosolíu út í pottinn. Haldið áfram að sjóða niður, þar til magnið er orðið cirka 1 bolli. Karamellan er þunn í fyrstu en þykknar þegar hún kólnar.
Takið eplin og setjið í skál. Hellið ½ bolla af karamellunni yfir ásamt kanil og salti – veltið eplunum vel upp úr þessu.
Setjið eplin síðan í eldfast mót (svona 20 x 20 cm).
Blandið þá höfrum, pekanhnetum, möndlumjöli, kanil, vanilludropum, kókosolíu og 4 msk af karamelluedikinu saman í skál. Hrærið saman með gaffli.
Dreifið síðan blöndunni yfir eplin í eldfasta mótinu.
Setjið inn í 190 gráðu heitan ofn og bakið í 45 til 60 mínútur eða þar til þetta er orðið gullinbrúnt að lit.
Takið þá út úr ofninum og látið kólna aðeins áður en þið berið þetta góðgæti fram.
Dreifið restinni af karamellunni yfir og njótið – annað hvort einu og sér eða með ís, þeyttum rjóma eða hverju öðru því sem hugurinn girnist.
Sjáðu hér í myndbandinu hvernig þetta er gert