Brúnkur, eða Brownies, eru ekki bara brúnkur – því sumar eru bara svo miklu betri en aðrar.
Á mínu heimili eru brownies alltaf jafn vinsælar og ekki síður þegar einhverju er bætt við þær eins og hér er raunin.
Trúði ekki eigin bragðlaukum
Hún Lilja Katrín á blaka.is sem gaf okkur uppskriftina að þessu góðgæti segist ekki hafa trúað eigin bragðlaukum þegar hún bakaði og smakkaði hana þessa. Þá segir hún kökuna vera enn betri þegar hún er búin að vera inni í ísskáp yfir nótt.
Mikilvægt hráefni í kökuna er „condensed milk“ sem er sæt mjólk sem minnir meira á karamellusósu en mjólk. En vandamálið er að þessi mjólk er ekki alltaf fáanleg hér á landi, hana er helst að finna í Kosti eða Hagkaup. Það er þó ekkert mál að gera kökuna án hennar en því verður ekki neitað að mjólkin færir þessa bombu upp á næsta plan.
Það sem þarf
175 gr dökkt súkkulaði
175 gr smjör
¾ bolli púðursykur
¾ bolli sykur
4 egg
½ bolli hveiti
2 msk kakó
100 gr grófsaxað hvítt súkkulaði
100 gr grófsaxað Daim
200 gr „condensed milk“
Aðferð
Hitið ofninn í 170°C.
Setjið dökkt súkkulaði og smjör í pott og bræðið saman yfir lágum hita.
Þegar súkkulaðið bráðið og blandast vel saman er potturinn tekinn af hellunni og púðursykri og sykri bætt saman við.
Svo eru eggin hrærð vel saman við.
Því næst er hveiti og kakó blandað saman við – en ekki of vel.
Skellið hvíta súkkulaðinu og Daim-inu í blönduna og hrærið vel saman.
Setjið blönduna í kassalaga form.
Hitið mjólkina og leyfið henni að sjóða í um eina til tvær mínútur. Hellið henni yfir og bakið kökuna í 30 til 40 mínútur.
jona@kokteill.is