Einkenni og meingerð kransæðasjúkdóms hjá konum eru að sumu leyti frábrugðin því sem gerist hjá körlum. Þá er sjúkdómurinn einnig oft ólíkur milli karla og kvenna.
Fyrir hið fyrsta kemur kransæðasjúkdómur að jafnaði fram áratug síðar hjá konum en körlum. Ástæður þessa eru ekki að öllu leyti þekktar en tengjast mögulega áhrifum kvenhormóna – en östrógen bætir t.d. starfsemi æðaþels. Engu að síður er ekki mælt með uppbótarhormónameðferð hjá konum við tíðahvörf. Ástæðan er sú að stórar framskyggnar slembirannsóknir hafa hvorki bent til ávinnings af hormónauppbót sem fyrsta eða annars stigs forvörn við kransæðasjúkdómi.
Stöðugur brjóstverkur
Östrógen í blóði er lægra hjá konum með sykursýki og áhætta þeirra að fá kransæðasjúkdóm er svipuð því sem sést hjá körlum á sama aldri. Meðgöngueitrun, háþrýstingur og sykursýki á meðgöngu eru sérstakir áhættuþættir kransæðasjúkdóms hjá konum sem annars hafa sömu áhættuþætti og karlar.
Háþrýstingur, sykursýki, kyrrseta, þríglýseríðar og reykingar eru hlutfallslega sterkari áhættuþættir hjá konum en körlum. Þótt kransæðasjúkdómur sé algengari meðal karla en kvenna, er stöðug hjartaöng (brjóstverkur) algengara fyrsta einkenni kransæðasjúkdóms meðal kvenna.
Einkenni kransæðasjúkdóms hjá konum og rannsóknir
Konur með kransæðasjúkdóm hafa oft önnur einkenni en karlar með sama sjúkdóm. Hafa má í huga að kyn, félagsleg staða, aldur og fleiri þættir móta gjarnan hvernig sjúklingar túlka og tjá einkenni.
Framsýnar rannsóknir hafa sýnt að flestar konur fá einhvers konar brjóstverk í tengslum við kransæðastíflu. Verknum er hins vegar oftar lýst sem stingandi og stendur hann skemur en hjá körlum, leiðir oftar niður í kvið, upp í kjálka eða aftur í bak. Einnig getur borið á meltingarónotum, ógleði, uppköstum og hjartsláttartruflunum. Loks virðist sem konur, fremur en karlar, lýsi andþyngslum eða mæði í stað verks.
Enda þótt fleiri karlar en konur greinist með kransæðasjúkdóm eru konur stór hluti þessa sjúklingahóps og einkenni þeirra oft ódæmigerðari. Áreynslupróf er ónákvæmara hjá konum en körlum. Rannsóknir sýna að konum er síður vísað í áreynslupróf með hjartariti en körlum. Áreiðanleiki áreynsluprófs er einnig minni hjá konum en körlum, eða 61% næmi og 70% sértæki í stað 72% og 77% hjá körlum. Ástæðan fyrir þessum mun á milli kynja er ekki að fullu ljós. Hann kann að liggja í minni sjúkdómsútbreiðslu hjá konum en oftar sjúkdómi í smáæðum, æðaspasma auk þess sem kven- og streituhormón geta haft áhrif á niðurstöður áreynsluprófs hjá konum.
Broken heart syndrome
Meingerð bráðs kransæðasjúkdóms er að mestu sambærileg hjá konum og körlum. Þó er algengara að yfirborðsrof og blóðtappar myndist í kransæðum hjá konum á stöðum þar sem ekki er um verulegar þrengingar eða kalkanir að ræða.
Fyrirbæri sem hefur verið kallað broddþensluheilkenni (broken heart syndrome) er mun algengara hjá konum en körlum, einkum eftir tíðahvörf. Einkennin eru oft á tíðum þau sömu og við bráðan kransæðasjúkdóm, jafnvel með losti, hjartsláttartruflunum og bráðri hjartabilun.
Eftir kransæðastíflu eru konur líklegri en karlar til að upplifa sálfélagslegt álag og þunglyndi, en horfur þunglyndra hjartasjúklinga eru lakari en annarra.
Þessi grein er úr Kransæðabókinni sem kom út 2016.
Tómas Guðbjartsson, hjartaskurðlæknir