Brownies-kökur eru alltaf góðar og á heimili Sælkera Kokteils þykja Brownies frá Betty Crocker með þeim betri.
En Brownies eru ekki bara Brownies eins og sést á þessari köku hér að neðan. Hér hefur Guðrún Veiga Guðmundsdóttir bætt ýmsu góðgæti við til að gera kökurnar öðruvísi og áhugaverðar – svo ekki sé minnst á bragðið.
Uppskriftin er úr bókinni Nenni ekki að elda sem kom út hjá Sölku fyrir jólin 2014.
Það sem þarf
1 pakki Betty Crocker Brownie Mix (egg, olía og vatn)
1 bolli salthnetur
2 bollar saxaðir Reese ́s Peanut Butter Cups
3 bollar litlir sykurpúðar
3 bollar Rice Krispies
1 og 1⁄2 bolli fínt hnetusmjör
2 bollar mjólkursúkkulaðidropar
Aðferð
Útbúið kökuna samkvæmt leiðbeiningum á kassa og bakið hana í 20-25 mínútur, líkt og leiðbeiningar segja til um.
Á meðan kakan bakast blandið salthnetum, sykurpúðum og Reese ́s Peanut Butter Cups í skál.
Þegar þið takið kökuna út úr ofninum þá hellið blöndunni um leið jafnt yfir hana. Setjið kökuna aftur inn í ofn í fimm mínútur.
Á meðan bræðið þið saman súkkulaðið og hnetusmjör. Rice Krispies fer þar saman við.
Takið kökuna út og smyrjið súkkulaðiblöndunni yfir.
Kakan þarf að dúsa að minnsta kosti tvo tíma í kæli áður en hún er skorin í bita.