Þessi grænmetisbaka er brjálæðislega góð – og alveg tilvalin fjölskylduréttur eða í klúbbinn, nú eða afmælið.
Þessa þurfið þið að prófa!
Það er hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit sem deilir hér með okkur þessari góðu uppskrift.
Það sem þarf
Í botninn
- 3 dl hveiti
- 100 g smjör
- 3 msk vatn
Aðferð
Hitið ofninn í 225°.
Blandið hráefnunum í botninn saman þannig að þau myndi deigklump, fletjið hann út og fyllið út í bökumót (líka hægt að nota venjulegt kökuform).
Forbakið í ca 10 mínútur.
Í fyllinguna
- 1 sæt kartafla (meðalstór)
- krydd eftir smekk (ég var með Best á allt, Ítalska hvítlauksblöndu, salt og pipar)
- 1 laukur
- 2 hvítlauksrif
- 2 handfylli af spínati
- 2 msk balsamik edik
- 2 egg
- 2 dl mjólk
- 150 g fetakubbur, mulinn í bita
- handfylli af cashew hnetum
Aðferð
Skerið sætu kartöfluna í teninga, veltið upp úr ólífuolíu og kryddið. Bakið við 180° í 20 mínútur.
Hakkið lauk og hvítlauk.
Hitið pönnu yfir miðlungsháum hita, bræðið smjör á pönnunni og bætið svo lauk og hvítlauk á hana. Steikið þar til mjúkt.
Bætið spínati á pönnuna og steikið áfram í um 2 mínútur.
Bætið þá balsamik ediki saman við og kryddið með salti og pipar.
Steikið allt saman í um 2 mínútur, takið svo af hitanum og látið standa aðeins.
Hrærið saman mjólk og egg.
Setjið helminginn af sætu kartöflunum í botnin á bökubotninn.
Setjið lauk- og spínatblönduna, fetaost og cashew hneturnar yfir.
Ef það er pláss, stingið þá fleiri sætum kartöflum í bökuna (ef það verður afgangur þá er um að gera að geyma restina t.d. út á salat eða til að eiga sem meðlæti).
Hellið eggjablöndunni yfir.
Bakið í 35-40 mínútur við 180°. Ef bakan fer að dökkna þá er gott að setja álpappír yfir hana.
Berið fram með góðu salati.
Og njótið!