Við hér á Íslandi þurfum að huga vel að húðinni yfir vetrarmánuðina þar sem kuldinn og þurrt loftið fara ekki vel með hana.
Húðin verður þurr og jafnvel grá og veitir þess vegna ekki af öllu því sem við getum gefið henni.
En það er ekki nóg að kaupa fín og góð krem því mikilvægt er að veita húðinni næringu innan frá og þá skiptir miklu máli hvað við látum ofan í okkur.
Hér eru nokkrar fæðutegundir sem eru góðar fyrir húðina allan ársins hring
1. Lax, silungur og túnfiskur
Þessi fiskur er stútfullur af omega-3 fitusýrum sem mýkja þurra húð og gefa henni raka. En það hjálpar til við að koma í veg fyrir ótímabærar hrukkur.
2. Appelsínur, grape og sítrónur
Þessir ávextir eru ríkir af C-vítamíni sem hefur góð áhrif á ónæmiskerfið en eru líka fínir náttúrulegir hrukkubanar.
3. Bláber
Eins og flestir vita eru þau stútfull af andoxunarefnum sem eru einstaklega góð fyrir húðina þar sem þau eiga sinn þátt í því að koma í veg fyrir niðurbrot byggingarefna hennar.
4. Dökkgrænt kál
Spínat og grænkál til dæmis eru góð uppspretta A-vítamíns en ef það vantar í fæðuna kemur það illa niður á húðinni. Vanti líkamann A-vítamín verður húðin þurr og flagnandi. Þá er A-vítamín líka talið geta dregið úr áhrifum öldrunar á húðina.
5. Egg
Steinefni eins og brennisteinn eru góð fyrir húðina en egg (og hvítlaukur) eru einmitt rík af því. Steinefnin hjálpa til við að halda húðinni mjúkri og auka á teygjanleika hennar.
6. Grænt te
Er mjög gott fyrir húðina og hjálpar til við að koma í veg fyrir bólur og útbrot. Þá er það einnig talið geta veitt ákveðna vörn gegn sortuæxlum.
7. Tómatar
Að borða tómata reglulega getur veitt vörn gegn útfjólubláum geislum og kemur þar af leiðandi í veg fyrir ótímabæra öldrun húðarinnar.