Það getur vissulega verið erfitt að halda í við þyngdina – sérstaklega með hærri aldri en þá er eins og það dugi að horfa á matinn og hann er sestur á magann eða rassinn.
Hvað maður lætur ofan í sig getur skipt öllu máli í því að halda þyngdinni í skefjum. Það er því ánægjulegt til þess að vita að borða megi meira af sumum fæðutegundum án þess að hlaupa í spik.
Fáar hitaeiningar
Þessar tíu fæðutegundir hér að neðan eiga það allar sameiginlegt að þær innihalda fáar hitaeiningar og eru auk þess afar góðar fyrir líkama og heilsu. Þú getur því leyft þér að borða nóg af þeim án nokkurrar samvisku.
Klettasalat
Finnst þér mikið af káli vera bragðlaust? Fáðu þér þá klettasalat. En klettasalatið er ekki aðeins bragðmikið heldur inniheldur það afskaplega fáar hitaeiningar. Í tveimur bollum af klettasalati eru innan við tíu hitaeiningar – þú getur því borðað ansi mikið magn án þess að hitaeiningarnar hlaðist upp.
Klettasalat með ólífuolíu og grófrifnum Parmesan osti er frábært annað hvort sem forréttur eða sem meðlæti.
Bláber
Bláber eru dásamlega góð og holl – og svo innihalda þau líka svo fáar hiteiningar. Talandi um að fá mikið fyrir lítið… því í bláberjum má finna afar mikilvæg næringarefni. Það er auðvelt að bæta bláberjum inn í fæðuna og einn bolli af bláberjum er stútfullur af góðum næringarefnum en aðeins 85 hitaeiningum.
Sellerí
Þetta er hið fullkomna snakk með hummus til dæmis. Sellerí er 95 prósent vatn og restin er trefjar. Í tveimur stilkum af sellerí eru ekki nema 13 hitaeiningar en fullt af trefjum. Það má því gúffa sellerí í sig án nokkurar samvisku.
Edamame baunir
Í einum bolla af Edamame baunum eru 130 hitaeiningar. Þeim má auðveldlega bæta inn í fæðuna, eins og til dæmis í pastarétti, salöt og jafnvel smoothie. Auk þess eru þær frábærar sem snarl – soðnar með örlitlu sjávarsalti.
Appelsínur
Þær eru stútfullar af trefjum og frábærar til þess að hjálpa til við að léttast. En þú verður að borða þær í heilu lagi og ekki nota þær í safa. Ein appelsína gefur þér þinn dagskammt af C-vítamíni og fullt af trefjum – og hún inniheldur aðeins 62 hitaeiningar (miðað við miðstærð af appelsínu).
Eggjahvítur
Þér er óhætt að borða fullt af eggjahvítum því ein eggjahvíta inniheldur ekki nema 17 hitaeiningar. Það má útbúa ommelettu úr eggjahvítum og er tilvalið að bæta spínati, tómötum og fetaosti við til að gera hana gómsæta.
Ekki þó alltaf sleppa því að borða allt eggið því rauðan inniheldur afar mikilvæg næringarefni.
Portobello sveppir
Ef þér finnst sveppir góðir ættirðu að fá þér Portobello sveppi. Þessir sveppir eru gjarnan matreiddir sem máltíð í stað kjöts. Einn stór Portobello sveppur inniheldur aðeins 18 hitaeiningar. Þeir eru virkilega góðir grillaðir eða fylltir með t.d. hvítlauki, spínati og sýrðum rjóma.
Jarðarber
Þau eru sæt og góð… og innihalda fáar hitaeiningar. Einn bolli af jarðarberjum telur aðeins 50 hitaeiningar en er engu að síður stútfullur af trefjum. Jarðarber eru góð fyrir heilsuna og húðina. Ef þú ert að reyna að léttast og langar í súkkulaðiköku í eftirrétt skaltu prófa að fá þér skál af jarðarberjum með örlitlum þeyttum rjóma eða jógúrt.
Þari
Þarinn er algengt snarl/snakk í Asíu og hann inniheldur ekki margar hitaeiningar. Þarinn er hrein náttúruafurð og er góð uppspretta joðs og mikilvægra steinefna. Einn bolli af þara inniheldur 32 hiteingar og þú færð hann í pakkningum í verslunum hér á landi.
Sætar kartöflur
Vissir þú að sætar kartöflur eru eitt það hollasta sem þú getur lagt þér til munns?
Fyrir utan hvað þær eru svakalega góðar þá innihalda sætar kartöflur mikilvæg næringarefni fyrir líkamann. Og ekki nóg með það því ein meðalstór sæt kartafla inniheldur einungis 112 hitaeiningar.