Ég rakst á þessa uppskrift að gamaldags vanilluhringjum fyrir nokkrum árum í dönsku blaði – og bara varð að prófa hana.
Öðruvísi uppskrift
Í mínum huga er nefnilega samasemmerki á milli vanilluhringja og jólanna þar sem ég ólst upp við að þeir væru á borðum á þessum árstíma.
Þessi uppskrift er þó aðeins öðruvísi en ég hef áður séð og voru það möndlurnar sem heilluðu mig við þessa uppskrift.
Ekki skemmir fyrir að uppskriftin er einföld og það tekur innan við klukkutíma að gera þessar gómsætu kökur.
Ég mæli svo sannarlega með þeim – en þetta eru einir bestu vanilluhringir sem ég hef prófað!
Gamaldags vanilluhringir
Það sem þarf
175 gr sykur
200 gr mjúkt smjör
1 egg
250 gr hveiti
75 gr möndlur
1 vanillustöng
Aðferð
Hitaðu ofninn í 200 gráður
Settu möndlurnar í matvinnsuvél og hakkaðu þær mjög fínt svo þær verði eins og mjöl.
Skafðu vanilluna innan úr vanillustöngunum.
Blandaðu smjöri og sykri saman í skál (hrærivél) og hrærðu lítillega.
Settu síðan eggið, möndlumassann og vanilluna út í og hrærðu aðeins saman.
Hrærðu hveitinu að lokum saman við.
Deigið á að vera nokkuð þykkt.
Notaðu hakkavél eða sprautupoka til að búa til hringi og settu á smjörpappír á bökunarplötu. Ég notaði sprautupoka úr plasti og það gekk mjög vel.
Bakaðu í ofni í svona 6 mínútur við 200 gráður. Ég byrjaði með undir- og yfirhita en breytti því síðan í blástur og fannst það henta betur. En það þarf að fylgjast vel með kökunum og um leið og þær taka á sig gylltan lit borgar sig að taka þær út.
Tilbúnar fyrir ofninn.
Leyfðu þeim að kólna á grind og settu hringina síðan í box.
Þessir vanilluhringir vekja alltaf jafn mikla lukku á mínu heimili enda rosalega góðir.
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com