Samkvæmt gögnum Krabbameinsfélagsins má merkja jákvæða þróun í heildartíðni nýgengis krabbameina. Hjá körlum stöðvaðist hækkunin fyrir um það bil sex árum og hefur tíðnin farið lækkandi síðan þá.
Hjá konum hefur tíðnin staðið í stað frá aldamótum en merkja má lækkun á allra síðustu árum. Mikilvægar vísbendingar eru því um að þróun nýgengis krabbameina sé loksins að færast í rétta átt.
Dánartíðni beggja kynja lækkar líka
Dánartíðni af völdum krabbameina var aftur á móti nokkuð stöðug frá upphafi og fram til ársins 2000. Hér eru líka góðar fréttir því frá aldamótum hefur dánartíðnin lækkað umtalsvert hjá báðum kynjum.
Að sögn Laufeyjar Tryggvadóttur framkvæmdastjóra Krabbameinsskrár má rekja stærstan hluta ofanskráðrar lækkunar á dánartíðni hjá konum til þriðjungs lækkunar á dánartíðni af völdum brjóstakrabbameins síðustu 20 árin.
Brjóstakrabbamein er langalgengasta krabbamein kvenna. Þennan góða árangur má bæði rekja til leitarstarfs Krabbameinsfélagsins og til stórstígra framfara í meðferð við brjóstakrabbameini. Þetta er gott dæmi um það hverju verður áorkað hjá lítilli þjóð fyrir tilstilli hugsjónastarfs félagasamtaka og hágæða heilbrigðisþjónustu sem nær jafnt til alla þegna þjóðfélagsins.
Til viðbótar við brjóstakrabbameinið má einnig sjá nokkra lækkun á dánartíðni af völdum fleiri meina, sérstaklega krabbameina í eggjastokkum og ristli.
Baráttan ber árangur
Hjá körlum munar mest um 20% lækkun á dánartíðni af völdum krabbameina í lungum og blöðruhálskirtli, en þessi tvö mein eru langstærstu skaðvaldarnir af krabbameinum hjá körlum. Hinn góða árangur varðandi lungnakrabbameinið má þakka áratugalöngu öflugu tóbaksvarnastarfi hjá Krabbameinsfélaginu og Hjartavernd og jafnframt síðustu ár hjá Lýðheilsustöð og Embætti Landlæknis.
Stærstan hluta lækkandi dánartíðni af völdum krabbameins í blöðruhálskirtli má væntanlega skýra með hinni miklu aukningu undanfarinna áratuga á skurðaðgerðum þar sem meinið er fjarlægt með því að nema kirtilinn á brott.
Þetta eru góðar fréttir!
Frá þessu er greint á vef Krabbameinsfélagsins – sjá nánar HÉR