Ýmsar ástæður geta legið að baki þyngdaraukningu og sumar sem við kannski áttum okkur ekki fyllilega á fyrr en of seint.
Ef þú ert að reyna að halda í við þyngdina eða að reyna að léttast ættirðu að skoða hvort venjur þínar fyrir svefninn séu að skemma fyrir þér.
1. Að borða of seint
Flestir hafa vanið sig á það að borða ekki þegar þeir eru ekki svangir – en að geyma það að borða þar til stuttu fyrir svefninn eru mistök. Það er erfitt fyrir líkamann því hann fer á fullt í að vinna úr matnum og melta hann á meðan þú sefur. Þetta gerir það að verkum að svefninn verður ekki jafn góður og það hefur neikvæð áhrif á þyngdina.
2. Að stilla klukkuna of seint
Það getur verið ansi freistandi að stilla klukuna eins seint og hægt er um morguninn. En það er ekki það skynsamlegasta. Að vakna og fara á fætur tímanlega, fá sér morgunmat og skipuleggja máltíðir dagsins er lykillinn að því að gæta að þyngdinni.
Með því að gefa sér ekki tíma á morgnana og hlaupa út úr dyrunum í stresskasti er líklegt til þess að hækka kortisól í líkamanum. En kortisól er stresshormónið og hækkun þess getur leitt til þess að þú bæði borðir óskynsamlega og sért sífellt svöng/svangur.
3. Að sofa ekki nóg
Margir fórna mikilvægum svefni í amstri dagsins enda svo mikið að gera hjá mörgum í vinnu og félagslífi. Þótt það virðist saklaust að fá aðeins minni svefn en nauðsynlegt er þá getur þetta gert skaða. Bæði er þetta slæmt heilsunni og getur leitt til þess að þú borðir of mikið og hugsir ekki nógu vel um hvað þú lætur ofan í þig. Of lítill svefn gerir okkur pirruð og þreytt, og dregur úr hæfni okkar til skynsamlegrar ákvarðanatöku.
4. Að fá sér koffín of seint
Með því að fá sér kaffi, eða aðra drykki sem innihalda koffín, seint á kvöldin geturðu myndað vítahring. Þú ert ekkert syfjuð/syfjaður þegar kemur að háttatíma og í kjölfarið sefurðu ekki vel sem leiðir til þess að morguninn eftir ertu þreytt/ur og þá færðu þér meira koffín til að hressa þig við. Þetta leiðir frekar til þess að þú neytir of margra hitaeininga.
5. Að sleppa hreyfingunni
Ef þú ert að reyna að léttast og borðar skynsamlega getur verið freistandi að verðlauna sjálfa/n sig með því að sleppa hreyfingu. Þótt mataræðið skipti meira máli en hreyfingin í því að léttast þá hefur endorfínið sem myndast við hreyfingu góð áhrif á skapið og einbeitingu – og það eitt og sér getur verið hvatning í því að halda áfram að borða rétt.
6. Að borða yfir sig
Það er engan veginn skynsamlegt að verðlauna sig eftir dag sem þú hefur borðað skynsamlega allan daginn og belgja sig síðan út af kvöldmatnum. Þetta eru algeng mistök sem margir gera – að halda að það sé í lagi að fá sér mikinn kvöldverð af þeir borðuðu svo rétt allan daginn. En líkaminn skilur ekki þessi rök og því leiðir það til þess að þú þyngist frekar en að léttast.
7. Að leyfa sér að snarla endalaust
Við þekkjum það öll að láta eftir þörfinni að fá sér eitthvað góðgæti á kvöldin. Ef snarlið/góðgætið er í formi sætinda eða saltaðs snakk gerir það lítið annað en að bæta við þyngdina. Reyndu því að fá þér eitthvað hitaeiningasnauðara, eins og t.d. ávexti, grænmeti eða ósaltaðar hnetur. Og alls ekki snarla of seint.
8. Að nota snjallsíma og tölvur fyrir svefninn
Það er sannað að bláa ljósið sem fylgir þessum tækjum hafa áhrif á hormóna líkamans og þá sérstaklega melatónín. En þeir hormónar skipta sköpum varðandi góðan svefn. Leitastu við að sleppa því að vera í þessum tækjum fyrir svefninn því góður svefn hjálpar þér að halda þig á beinu brautinni varðandi gott og skynsamlet mataræði.
Heimildir – Industrial Athletic