Ekkert hjónaband er alveg fullkomið og með tímanum geta hjón vaxið hvort frá öðru ef þau gæta sín ekki.
Lítil deilumál geta orðið að stóru rifrildi, nándina getur vantað og hjón farið að hreyta hvort í annað.
Við verðum að hafa það á hreinu að hjónabandið er vinna sem krefst stöðugrar athygli okkar og málamiðlunar.
Hér eru nokkur einföld ráð sem geta bætt hjónabandið
1. Að kyssast í að minnsa kosti 30 sekúndur á dag og knúsast í alla vega tvær mínútur
Með tímanum geta kossar og faðmlög orðið vélræn og snögg – eitthvað sem þið gerið án þess að hugsa. En flýtikossar og örstutt faðmlög hafa hreint ekki sömu áhrif og innilegt knús og heitir kossar. Reynið að hafa þetta í huga í dagsins önn.
2. Farið í góðan göngutúr saman
Göngutúrar eru tilvalin leið til að ræða málin og hreinsa hugann. Að ganga saman í sömu átt getur virkað svo miklu betur en að sitja á móti hvort öðru og tala saman.
3. Ekki gleyma kynlífinu
Hér er allt í lagi að hugsa frekar um magn en gæði. Þegar kynlíf er stopult eða jafnvel ekkert er mikil hætta á að þið missið nándina sem er svo mikilvæg til að eiga innilegt samband. Það er því miklu betra að eiga stutt mök en engin.
4. Gefið ykkur tíma til að fara á stefnumót
Farið tvö út að borða eða í bíó, haldist í hendur og hagið ykkur eins og þið gerðuð í tilhugalífinu. Takið frá ákveðinn tíma bara fyrir ykkur tvö.
5. Skrifið um rifrildi ykkar og ósætti
Prófið að setja niður á blað nákvæma punkta frá ósættinu en gerið það á hlutlausan hátt. Sem sagt eins og séð með augum þriðja aðila. Þannig getið þið áttað ykkur betur á ágreiningsefninu og jafnvel séð eitthvað sem fór fram hjá ykkur í hita leiksins.
6. Horfið saman á rómantíska gamanmynd
Já kannski finnst einhverjum það hallærislegt en rannsóknir sýna að það að horfa á slíkar myndir og tala saman um þær á eftir getur raunverulega hjálpað pörum. Þessar myndir fjalla nefnilega oftast um pör sem eru að kljást við nákvæmlega sömu vandamál og við hin. Og með því getur myndast ágætis umræðugrundvöllur
7. Ekki gleyma öllu því góða sem makinn gerir fyrir þig og einblína bara á það sem hann gerir ekki
Í langtímasamböndum vill það gjarnan verða svo að fólk tekur makanum, og öllu sem hann gerir, sem sjálfsögðum hlut.
Taktu þig til í eina viku og skrifaðu niður daglega eitthvað sem makinn gerir og viðkemur þér. Í lok vikunnar sýndu honum/henni svo listann og sýndu að þú kunnir að meta það sem hann/hún gerir.
8. Gleymið svo alls ekki að vera par
Því þannig byrjaði þetta allt saman hjá ykkur og stundum þarf þetta bara eingöngu að snúast um ykkur tvö!