Það jafnast fátt á við það að eiga góðan og skemmtilegan hund. Hundurinn er jú besti vinur mannsins og einstaklega góður og traustur félagi.
En stundum skiljum við kannski hundana okkar ekki eins vel og við vildum enda fæst okkar gædd þeim hæfileika að geta talað við dýrin.
Hér eru nokkur ariði sem geta útskýrt vissa hegðun hundsins
Fylgir þér á klósettið
Þér finnst kannski ekki alltaf voða gaman þegar hundurinn þinn eltir þig hvert fótmál en því er ekki að neita að það er samt krúttlegt. Ástæða þess að hundurinn þinn fylgir þér hvert sem þú ferð og þar á meðal á klósettið er sú að það er í eðli hans að gera allt með fjölskyldunni – og þá meinum við ALLT.
Færir þér litlar gjafir
Kemur hundurinn þinn stundum til þín með eitthvað sem hann vill gefa þér?
Ástæðan fyrir því er sú að hundar vilja alltaf deila gleði sinni og ánægju með öðrum og í þeirra huga er enginn betur til þess fallinn en einmitt þú. Hugsaðu þér hvað þú ert heppin/n!
Kyssir þig og sleikir
Á meðan sumum finnst það frábært að fá koss frá hundinum sínum finnst öðrum það ógeðfellt. En flestir hundar vilja sleikja eiganda sinn endrum og sinnum. Með þessu vill hundurinn sýna þér að hann elski þig og sé þér undirgefinn – þá hjálpar þetta líka honum sjálfum að losa um stress.
Missir sig þegar þú kemur heim
Allir hundaeigendur kannast við spenninginn þegar þú kemur heim og þá geta oft orðið smá læti þar sem hundurinn missir sig úr gleði að sjá þig. Ekki láta þetta angra þig, þú ert númer eitt í hans lífi og hann er bara svo rosalega glaður að sjá þig – og með þessu vill hann sýna þér hvað hann saknaði þín.
Veit þegar eitthvað er að
Hundar skynja vel þegar eitthvað er að hjá þér. Þeir lesa úr líkamstjáningu þinni og síðan virðast þeir hafa sjötta skilningarvitið þegar kemur að þessum efnum. Þeir eru líka meira en reiðubúnir að hugga þig og láta þér líða betur. Hversu dásamlegt er það!
Skríður upp í rúmið þitt
Flestir ef ekki allir hundar elska að fá að sofa uppi í rúmi hjá þér. Þannig líður hundinum vel því þá er hann svo nálægt þér og eins og áður sagði þá er það í eðli hans að gera ALLT með fjölskyldunni eða eiganda sínum.
Þannig að ef hundurinn þinn skríður upp í rúm þegar þú ert ekki heima þá er það ekki bara vegna þess að rúmið þitt er þægilegt heldur líka vegna þess að hann saknar þín og með því að vera í þínu rúmi finnst honum hann vera nær þér.
Lyftir upp einum fæti
Þegar hundurinn þinn lyftir upp öðrum framfætinum þýðir það oftast að hann sé annað hvort í stuði fyrir smá leik eða að hann sé svangur.
Stundum gera hundar þetta líka þegar þeir sjá eitthvað áhugavert í umhverfinu.
Fá samþykki þitt
Ef þér finnst stundum eins og hundurinn þinn sé að leita eftir samþykki þínu fyrir eitthvað þá er það rétt hjá þér. Þitt álit skiptir hann öllu máli.
Pírir og/eða blikkar augum
Þegar hundurinn þinn blikkar eða pírir augun er hann oftast að leita eftir athygli. Hann langar að leika og eiga gæðastund með þér.
Hallar sér upp að þér
Flestir hundar þurfa mikla ást og væntumþykur og sumir meira en aðrir. Ef hundurinn þinn hallar sér upp að þér er hann klárlega að leita eftir athygli, smá klappi, knúsi eða klóri. Láttu það eftir honum – og mundu að í hans lífi ert það þú sem skiptir öllu máli og hann treystir alfarið á þig.