„Það er varla þverfótað fyrir sjálfskipuðum næringarþerapistum og öðrum sérfræðingum sem segja að allir verði að fara að laga sýrustigið og fara að borða meira basískt til að laga súrleikann.
En útá hvað gengur þessi kenning um basískt mataræði?
Og hvaðan kemur þessi kenning?
Og er eitthvað vit í þessu?
Hvað er basískt mataræði?
Þessi tegund af mataræði gengur undir ýmsum nöfnum: Alkaline diet, basískt mataræði, pH miracle living eða pH lífstíll. Basískt mataræði gengur útá að pH-ið eða sýrustigið í blóðinu sé of lágt og það sé eitthvað sem þurfi að laga. Það eru tveir skólar hvernig súrleiki líkamans er mældur, annars vegar að skoða blóðið í smásjá eða að mæla pH-ið á þvagi.
Til að laga svo þessar súru aðstæður (það virðast reyndar flestir vera súrir) er mælt með að borða basískan mat. Þeir sem mæla með basísku mataræði flokka fæðutegundir niður eftir hvort þær séu basískar eða súrar. Hvernig hvaða matur er flokkaður í súrt eða basíkst er ekki alveg 100% á hreinu og getur það verið smá breytilegt.
En í grunninn þá eru súrar fæðutegundir: sumir ávextir, korn, mjólkurafurðir, kjöt, fiskur, áfengi, kaffi og fleira.
Basíkar fæðutegundir eru: grænmeti, eplaedik (basísk sýra?), AB-mjólk og sumir ávextir og af einhverri sérstakri ástæðu eru sítrónur basískar.
Allt tal um að laga pH-ið með mataræði er kjaftæði
Allur matur sem þú borðar verður súr vegna magasýranna og allt (og þá meina ég allt, bæði basískt og súrt fæði) fer niður í pH-ið 1.5 til 3.5. Eftir að maginn hefur brotið niður matinn þá fer hann áfram niður í garninar þar sem brisið hlutleysir matinn og að lokum verður maturinn örlítið basískur. Þannig að það skiptir engu máli hvað þú borðar, líkaminn gerir matinn fyrst súran og svo basískan og svo kúkarðu því sem þú nýtir ekki.
Annað vandamál við þessi fræði er að það er ekki hægt að breyta pH-inu í blóðinu með matarræði. Reyndar þarf bara ekkert að breyta sýrustigi blóðsins, það er alltaf á milli pH 7.35-7.45 – og það er stórhættulegt að reyna að breyta því hið minnsta.
Ef pH-ið breytist bara örlítið þá líður yfir þig og ef það fer niður fyrir pH 7 eða uppfyrir 7.8 þá deyrðu. Þannig að allt tal um að laga pH-ið með basísku mataræði er kjaftæði.“
Þessi pistill er hluti úr grein eftir Vísindamanninn en hann er lífefnafræðingur með mikinn áhuga á öllu sem tengist vísindum.
HÉR má sjá greinina í heild sinni.
Kíktu HÉR á facebook-síðu Vísindamannsins