Ég hef ekki farið leynt með áhuga minn á kartöflum – en mér finnst kartöflur alveg einstaklega góðar og hef gaman af að prófa nýjar og nýjar útfærslur.
Bakaðar kartöflur hafa samt ekkert verið neitt sérstaklega ofarlega á blaði hjá mér en nú er ég hins vegar komin með frábæra uppskrift að bökuðum og ég verð að viðurkenna að þetta er sú besta sem ég hef prófað hingað til.
Þær allra bestu
Um helgina var ég með lambaribeye sem við skelltum á grillið og mig langaði í góðar kartöflur með því. Og þessar saltbökuðu kartöflur smellpössuðu með lambinu og voru alveg svakalega góðar.
Það er gott að setja smá sýrðan rjóma eða smjör ofan í heita kartöfluna en við vorum líka með hina klassísku Bernaise sósu með kjötinu og þá er gott að skella smá ofan í kartöfluna… alla vega fyrir þá sem finnst Bernaise góð.
Þessar kartöflur verða klárlega gerðar aftur og aftur og…
Saltbakaðar kartöflur
Það sem þarf
Stórar bökunarkartöflur
Eggjahvítu
Gróft sjávarsalt
Aðferð
Hitið ofninn að 220 gráðum.
Takið kartöflurnar og notið mjótt oddhvasst áhald (ég nota fondue-gaffal) til að stinga létt í kartöflunar allan hringinn.
Setjið vel af grófu sjávarsalti á disk og dreifið aðeins úr því.
Hrærið eggjahvítuna og smyrjið síðan kartöflurnar með henni.
Veltið síðan kartöflunum vel upp úr saltinu og leggið þær í ofnskúffu.
Setjið inn í ofn og bakið í að minnsta kosti klukkutíma.
Takið út og njótið!
jona@kokteill.is