Flestir þeir sem komnir eru vel yfir fertugt muna eftir hljómsveitinn Brunaliðinu. Bandið var sett saman árið 1978 af Skífunni og var tilgangurinn að búa til súperband. Í bandið voru m.a. fengnir þeir Pálmi Gunnarsson, Magnús Eiríksson, Diddú, Ragga Gísla og Laddi. Fyrsta plata Brunaliðsins, Úr öskunni í eldinn, innihélt hvern smellinn á fætur öðrum enda seldist platan eins og heitar lummur. Í desember 1978 kom síðan út jólaplata með lögum sem enn eru spiluð og standa ávalt fyrir sínu. Síðasta plata sveitarinnar, Útkall, kom út í ágúst 1979 en hún innihélt ekki einn einasta smell og í kjölfarið á því lagði sveitin upp laupana. Engu að síður eru 2 lög af þeirri plötu sem hafa lifað en það eru lögin Stend með þér sem Pálmi syngur og Ástarsorg í flutningi Röggu.
Tónleikar í Eldborg
Og nú er von á góðu því sveitin hyggst koma saman aftur eftir 35 ára hlé og eru margir farnir að hlakka til. Stefnt er að tvennum tónleikum í Eldborgarsal Hörpu laugardaginn 18. apríl. Þeir sem syngja með sveitinni að þessu sinni eru Pálmi, Magnús Kjartansson, Diddú, Laddi, Erna Þórarinsdóttir, Eva Ásrún Albertsdóttir og Erna Hildur Gunnarsdóttir. Okkur hér á Kokteil finnst miður að Ragga Gísla verði ekki með enda söng hún nokkra af smellum sveitarinnar. Hennar verður sárt saknað. Engu að síður stefnir í gott partý í Hörpunni í apríl þar sem án efa lögin Ég er á leiðinni, Einskonar ást og Sandalar fá að óma, og erum við hér þess fullviss að salurinn muni taka hressilega undir.
Og þá er bara að byrja að hita upp!