Í huga Sælkera Kokteils er fátt notalegra en ljúffengur „brunch“ með góðum vinum. Hádegi á laugardegi eða sunnudegi er svo tilvalið til að hitta vinina og slaka á yfir spjalli. Og þá skiptir umhverfi staðarins ekki síður máli til að fullkomna stundina.
„Brunch“ á Apotekinu
Um daginn prófaði Sælkerinn nýjan stað fyrir „brunch“ og varð Apotekið í Austurstræti fyrir valinu. Staðurinn er einstaklega skemmtilega innréttaður og notalegur í alla staði. Sælkerinn og borðfélagar fengu sæti í skeifulaga bás sem gefur gott næði til að spjalla.
Áhugaverður matseðill
Hópurinn samanstóð af fjórum vinum sem enginn fékk sér það sama af matseðlinum. „Brunch-matseðillinn“ er ekki stór en fjölbreytnin er samt nægileg til að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi og jafnvel nóg til að fyllast valkvíða, eins og gerðist hjá þessum hópi. Að lokum var ákveðið var að panta Önd og vöfflu, Huevos Rancherso, Humar Benný og Vöfflu Benný. Því miður var ekki hægt að fá síðast nefnda réttinn þar sem eitt hráefnið var ekki til og varð því Morgunmatur„inn“ fyrir valinu í staðinn.
Og þá var að smakka réttina
Sælkerann var lengi búið að langa til að smakka öndina og vöffluna en sá réttur samanstendur af hægelduðu andalæri, karamelluseruðum eplum, belgískri vöfflu og maltsósu. Ekki varð Sælkerinn fyrir vonbrigðum því öndin var afar mjúk og bragðgóð og kom skemmtilega á óvart að borða vöfflu með henni. Þá settu eplin og þá sérstaklega maltsósan punktinn yfir i-ið. Sem sagt mjög góður réttur sem Sælkerinn á klárlega eftir að fá sér aftur.
Humar Bennýið inniheldur smjörsteiktan humar, english muffin, yuzu-hollandaise sósu, smá salat og auðvitað egg Benedict en þaðan er nafnið á réttinum komið. Þessi réttur var alveg ótrúlega góður og skemmtilegt „tvist“ að hafa humar með eggjunum – klárlega eitthvað sem maður hefði ekki látið sér detta í hug.
Huevos Rancheros er dæmigerður mexíkóskur morgunmatur, hér var hann á tortillu með steiktu eggi, chorizo pylsu, avókadó, osti og sterkri salsa-sósu. Allt bragðaðist þetta vel. Síðasti rétturinn, Morgunmatur„inn“, samanstóð af beikoni, tveimur eggjum, heimagerðum pylsum, kartöfluteningum, bökuðum baunum og ristuðu súrdeigsbrauði Apoteksins. Sem sagt dæmigerður „brunch“ morgunmatur.
Á eftir fékk hópurinn sér Espresso og Cappuccino.
Jákvæð og notaleg upplifun
Þjónustan á staðnum var til fyrirmyndar, bæði lipur, notaleg og athugul. Fékk hópurinn að njóta sín án þess að nokkur ræki á eftir honum. Apotekið hefur allt það sem Sælkerinn sækist eftir þegar hann fer út að borða, þ.e. góðan mat, góða þjónustu og notalegt andrúmsloft. Upplifun hópsins var afar jákvæð og allir einstaklega ánægðir með valið í þetta sinn.
Sælkerinn mælir hundrað prósent með Apotekinu í „helgarbrunch“.