Blendnar tilfinningar kunna að fylgja því að hætta á blæðingum og kveðja Rósu frænku fyrir fullt og allt – og ekki er útilokað að þér finnist þú komin á einhvers konar endastöð.
Eitt af því sem einkenndi þig sem konu er horfið úr lífi þínu. Þessar mánaðarlegu blæðingar (reyndar oftar hjá sumum) hafa verið hluti af lífi þínu í um fjörutíu ár svo það er eðlilegt að finna fyrir eftirsjá.
Hringurinn styttist
Á breytingaskeiðinu er algengt að tíðahringur kvenna styttist í fyrstu niður í 21-23 daga. Þetta gerist yfirleitt áður en hann síðan lengist smátt og smátt og hléin á milli blæðinga verða sífellt lengri. Lok þessa ferlis eru síðan á þann veg að blæðingar hætta alveg.
Á þessu tímabili er jafn eðlilegt að hafa blæðingar í tvo daga, tíu daga, á tíu daga fresti, tvisvar í sama mánuðinum eða á 28 daga fresti. Það getur verið allur gangur á þessu.
Endurspegla fyrstu árin
Óreglulegar og miklar blæðingar á breytingaskeiðinu geta verið heldur bagalegar og valdið konum vandræðum. Sumar eiga jafnvel erfitt með að sinna starfi sínu af fullum krafti af þessum sökum. Ekki er nóg með að blæðingarnar geti verið miklar og staðið lengi heldur fylgja þeim oft verkir og krampar.
Þær sem hafa fætt barn kannast kannski við að dregið hafi úr tíðaverkjum eftir barnsburð. En þegar konur nálgast tíðahvörf fer þetta að breytast. Þá verða blæðingarnar oft eins og þær voru þegar þær byrjuðu og má segja að blæðingar á breytingaskeiði endurspegli fyrstu árin eftir að tíðir hófust.
Eðlilegt að finna fyrir eftirsjá
Þrátt fyrir að þú hafir bölvað blæðingunum í hvert skipti, og jafnvel þínum nánustu, þegar fyrirtíðaspennan var að gera út af við þig, þá sérð þú þetta skeið ef til vill í öðru ljósi núna þegar hillir undir lok þess. Og þér finnst þú jafnvel vera að missa eitthvað.
En hvað með tímann þegar þú gekkst með barn? Fannst þér ekki bara notalegt að losna við blæðingarnar á meðgöngunni?
Þegar Rósa hefur loksins kvatt geta allir mánuðir orðið eins og þegar þú varst ófrísk – en þó án ógleði, uppkasta, bjúgs og þyngdaraukningar. Konur þurfa bara aðeins að venjast því að fá ekki þennan óboðna gest í heimsókn.
Í sjálfu sér ætti að vera notalegur tími framundan – tími þar sem þú þarft ekki að hafa áhyggjur af blóði, flóði, fyrirtíðaspennu eða þungun.
Nú er kominn tími til að njóta!