Á sunnudaginn, sjálfan mæðradaginn, fer fram árleg vorganga Göngum saman. Gengið verður um allt land og einnig á Tenerife og hefjast göngurnar klukkan ellefu.
Hlín Reykdal, Omnom og Hildur Yeoman
Í ár fagnar Göngum saman 10 ára afmæli og er gangan hluti af viðamikilli dagskrá sem stendur yfir allt afmælisárið.
Hlín Reykdal hannaði sérstök nisti, Omnom gaf sérmerktar pakkningar af súkkulaði og hönnuðurinn Hildur Yeoman kynnti sérhannaða boli og taupoka sem seldir verða á göngustöðum á sunnudaginn. Og eins og undanfarin ár leggur Landssamband bakameistara félaginu lið með sölu á brjóstabollum alla mæðradagshelgina. Framundan er síðan sérstök afmælisráðstefna í október.
Hlutavelta með glæsilegum vinningum
Í Reykjavík verður gengið frá Háskólatorgi undir lúðrablæstri og gengið um miðbæinn á hraða sem allir ráða við. Gangan er að sjálfsögðu gjaldfrjáls en á Háskólatorgi gefst velunnurum Göngum saman kostur á að styrkja rannsóknir á brjóstakrabbameini með frjálsum framlögum, þátttöku í glæsilegri hlutaveltu eða með því að kaupa varning Göngum saman. Vísindamenn, sem þegið hafa styrki félagsins, munu kynna störf sín á torginu.
Styrktarfélagið Göngum saman styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini og hefur veitt íslenskum vísindamönnum 70 milljónir í styrki frá upphafi. Göngum saman á rætur í grasrótarstarfi 22ja kvenna sem tóku þátt í Avon göngu í New York haustið 2007 en þar var gengið eitt og hálft maraþon til fjáröflunar fyrir rannsóknir og meðferð á brjóstakrabbameini. Við heimkomuna var ákveðið að halda göngunni áfram og var félagið stofnað í september 2007. Markmið þess er að styrkja íslenskar grunnrannsóknir á eðli og orsökum brjóstakrabbameins og flýta fyrir bættri meðferð og auknum lífslíkum
Gott málefni og sjálfboðaliðastarf
Göngum saman er rekið af sjálfboðaliðum og fjármagnað með sölu varnings, frjálsum framlögum og styrkjum frá fyrirtækjum en rekstrarkostnaður félagsins er vart mælanlegur. Lögð er megináhersla á að öll framlög einstaklinga renni óskipt í styrktarsjóð félagsins.
Formaður Göngum saman og aðal hvatamaður að stofnun þess, Gunnhildur Óskarsdóttir dósent við Háskóla Íslands, var í ársbyrjun sæmd riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til stuðnings krabbameinsrannsóknum og til heilsueflingar.