Okkur á Kokteil finnst þetta kjúklingasalat með þeim betri sem við höfum smakkað. Uppskriftina fengum við á síðunni hennar Evu Laufey Kjaran. Þetta er einstaklega bragðgott og næringarríkt salat fyrir fólk á besta aldri og auðvitað alla hina líka. Auk þess er það einfalt í gerð sem okkur hér finnst alltaf mikill kostur. Uppskriftin hér að neðan miðast við 4 – 5 manns. Ef þú vilt hins vegar gera salat fyrir 2 einstaklinga þá er bara að minnka uppskriftina um ca. helming.
Það sem þú þarft fyrir 4 – 5:
1 stór poki spínat
3 kjúklingabringur
Sataysósu í krukku
1 lárperu
1 box kirsjuberjatómata
1 pakki kúskús
1 krukka fetaostur (við notuðum aðeins rúmlega ½ krukku)
Kjúklingur steiktur á pönnu í nokkrar mínútur, kryddað með salti og pipar.
4 – 5 msk. af sataysósunni bætt við og látið malla í góða stund við vægan hita.
Kúskús undirbúið (við notuðum kúskús með sólþurrkuðum tómötum).
Lárperan flysjuð og skorin í bita og tómatar skornir til helminga eða í 3 hluta.
Spínatið sett í botninn á góðu fati.
Kúskús dreift yfir spínatið og kjúklingi síðan raðað yfir það.
Tómötum og lárperu dreift yfir og að lokum fetaostinum og olíunni sem honum fylgir.
http://www.evalaufeykjaran.com