Stundum langar mann einfaldlega ekki í heila máltíð en er samt alveg til í að snarla eitthvað. Þá er alveg kjörið að henda í eitthvað mexíkanskt enda býður sú matargerð upp á ýmsar útfærslur af alls kyns góðgæti.
Frábært um helgi
Þennan æðislega nachos rétt með nautahakki er tilvalið að útbúa um helgi og þess vegna til að maula í sófanum yfir góðri mynd. Uppskriftina að þessu góðgæti gaf hún Svava á Ljúfmeti og lekkerheit okkur.
Súper nachos
- 500 gr nautahakk
- 1/2 laukur, hakkaður
- 1/2 tsk chilikrydd
- 1 tsk paprikukrydd
- 1/2 tsk kúmín (ath. ekki kúmen)
- 1/2 tsk rauðar piparflögur
- salt og pipar
- 1 dós pinto baunir
- 1,5 dl vatn
- Nachos flögur
- 7 – 8 dl rifinn ostur, t.d. blanda af cheddar og mozzarella
- avókadó
- sýrður rjómi
- ostasósa
Aðferð
Mýkið laukinn í olíu á pönnu yfir miðlungsháum hita.
Bætið nautahakkinu við og steikið þar til fulleldað.
Kryddið og bætið baunum og vatni á pönnuna.
Smakkið til, það gæti þurft að krydda betur. Látið malla við vægan hita á meðan hin hráefnin eru undirbúin.
Salsa sósa
- 5-6 plómutómatar (eða aðrir góðir tómatar), skornir í teninga
- 1/2 laukur
- 1 jalapeno, fínhakkað
- 1/2 askja kóríander, saxað
- safi úr 1 límónu
- 1/2 tsk salt
Blandið þessu öllu saman.
Og svona er þetta sett saman að lokum
Setjið nachosflögur í botninn á eldföstu móti.
Setjið smá ostasósu yfir, síðan eitt lag af nautahakksblöndu og að lokum rifinn ost.
Setjið annað lag af nachosflögum yfir, smá ostasósu, síðan nautahakksblöndu og ost.
Endurtakið þannig að alls séu þrjú lög.
Setjið í 180° heitan ofn þar til osturinn hefur bráðnað.
Setjið salsasósuna yfir ásamt avókadó, sýrðum rjóma og ostasósunni (gott að hita hana aðeins í örbylgjuofni áður).
Njótið!