Brúnkur eru alltaf svolítið uppáhalds enda einstaklega góðar og hægt að leika sér endalaust með ólíkar útgáfur af þeim.
Ofurhollt næringarefni
Hér er komin uppskrift með ofurhollu innihaldsefni sem er stútfullt af góðum næringarefnum og góðum fitum. Og þótt þér finnist kannski skrýtið að nota þetta í brúnkurnar þá mun enginn sem smakkar þær vita af því.
Við erum að tala um að setja avókadó í uppskriftina og það svínvirkar til að gera þær mjúkar, bragðgóðar og auðvitað hollar.
Hentu í þessar við fyrsta tækifæri – þú verður ekki svikin/n.
Það sem þarf
1 bolli dökkt súkkulaði
¼ bolli ósaltað smjör
1 avókadó
2 egg
1/3 bolla hlynsykur eða kókossykur
¼ bolla kakó
½ tsk lyftiduft
2 msk hlynsíróp
1 tsk vanilludropar
örlítið fínt sjávarsalt (ca 1/8 tsk)
¼ bolli dökkir súkkulaðibitar/dropar
Aðferð
Hitið ofninn að 180 gráðum.
Klæðið kökuformið með bökunarpappír.
Bræðið bolla af dökka súkkulaðinu og smjöri saman yfir vatnsbaði.
Maukið avókadó í matvinnsluvél þar til það er orðið mjúkt.
Bætið þá avókadó við súkkulaðiblönduna.
Hrærið síðan eggjunum saman við.
Setjið hlynsíróp, hlynsykur/kókossykur, kakó, lyftiduft, salt og vanilludropa út í skálina og hrærið allt saman.
Bætið að lokum ¼ bolla af súkkulaðibitum/dropum saman við.
Setjið síðan í formið og inn í ofn.
Bakið í 25 mínútur eða þar til hægt er að stinga pinna í án þess að neitt sitji eftir á honum.
Takið þá út og látið kólna alveg áður en brúnkurnar eru skornar.
Njótið!
Uppskrift fengin hjá lexiscleankitchen.com