Þar sem aldur kvenna á breytingaskeiði getur verið afar breiður eru innan þess hóps bæði konur sem enn vilja eiga börn og konur sem eru hættar öllum barneignum. Og ef einhver er að velta því fyrir sér hvort hægt sé að verða barnshafandi á breytingaskeiði, með mjög óreglulegar blæðingar, og tíðahvörf handan við hornið er svarið JÁ.
Að verða kannski amma og mamma á sama tíma
Það er útbreiddur misskilningur að konur á breytingaskeiði geti ekki orðið ófrískar. Þannig að svo framarlega sem þú vilt ekki verða mamma á sama tíma og þú verður amma þá er um að gera að fara varlega. Talið er æskilegt að bíða í tvö ár eftir að blæðingum lýkur áður en hætt er að nota getnaðarvarnir því mögulega getur þú orðið ófrísk þótt þú hafir ekki haft neinar blæðingar í ellefu mánuði. Auðvitað er eðlilegt að halda að eftir svona marga mánuði án blæðinga sértu ekki lengur frjósöm. En þannig er það víst ekki.
Gætir hæglega orðið tvíburamóðir
Rétt áður en tíðahvörfin sjálf skella á er það hið duttlungafulla og sveiflukennda magn estrógens sem ræður því hvort einu, tveimur, mörgum eða engu eggi er sleppt í tíðahringnum. Á þessu tímabili geta sveiflurnar verið miklar. Ef magnið er lágt gefur það auga leið að ekkert egg er á ferðinni þann mánuðinn. Sé magn estrógens hins vegar hátt geta þau orðið fleiri en eitt. Þess vegna er eins gott að vera á vaktinni og fara varlega því þegar það gerist gætir þú hæglega orðið tvíburamóðir níu mánuðum seinna.
En svo hentar það líka sumum konum að eiga börn á breytingaskeiði, til dæmis konum sem hafa einbeitt sér að frama sínum og telja þetta rétta tímann fyrir barneignir. Á þessu er allur gangur en sértu hins vegar búin að gera það upp við þig að þú sért hætt frekari barneignum skaltu ekki treysta á það að þú sért sloppin þótt þú hafir engar blæðingar haft í næstum því ár.