Maður hefði haldið að allir vildu vera hraustir og heilbrigðir og væru þar af leiðandi þakklátir fyrir heilsuna. En eins ótrúlega og það hljómar í mínum eyrum er þetta víst ekki svona einfalt því fíkn birtist í ólíklegustu myndum og spilar þarna inn í.
Mannskepnan er svo áhugaverð
Ég dett stundum inn í þætti í sjónvarpinu sem fjalla um raunverulegt fólk. Sem sagt ekki leikna þætta heldur þætti sem fjalla um raunverulega gleði fólks, sorgir þeirra, afrek, vandamál og fleira í þeim dúr. Mér finnst mannskepnan svo áhugaverð og alltaf jafn gaman að sjá hvað við erum ólík sem einstaklingar. Það sem mér finnst og það sem ég geri og get er eitthvað allt annað en næsti maður gerir, getur og finnst.
En þrátt fyrir að ég geri mér fulla grein fyrir því hversu ólík við erum hefur það aldrei hvarflað að mér að einhver gerði í því að reyna að vera veikur. Ég hefði bara aldrei látið mér detta í hug að einhverjum þætti það gott að láta aðra halda að hann væri fárveikur og jafnvel dauðvona. Hafandi alist upp með ömmu sem þurfti ung að kljást við MS-sjúkdóminn og kvarta aldrei finnst manni svo óraunverulegt að fólk geri í því að vera „veikt“.
Fárveik og dauðvona
En annað kom nú á daginn fyrir stuttu þegar ég horfði á einn af þessum þáttum sem ég límist stundum við. Í þessum ameríska sjónvarpsþætti var fárveik og dauðvona kona – eða svo sagði hún alla vega sjálf. Kona þessi tók inn endalaus lyf við öllu því sem var að hrjá hana og sýndi hún áhorfendum stórt lyfjabox sitt. Lyfin voru víst til þess að halda henni á lífi og lina þjáningar hennar. Þarna voru líka mættar systir konunnar og 18 ára dóttir og vildu þær fá hana til að horfast í augu við vandamálið. Í augum dótturinnar var þetta nefnilega allt í hausnum á mömmunni og sagði hún móður sína vanrækja börn sín, fjölskylduna og lífið almennt. Og fullyrti stúlkan að enginn læknir hefði sagt móður sinni að hún væri dauðvona. Eiginmaður og faðir stúlkunnar var þarna mættur líka en öll orka hans fór í að hugsa um veika konu sína og „kóaði“ hann með henni fram í rauðan dauðann.
Niðurstaða sálfræðings í lok þáttar var sú að blessuð konan væri háð því að vera veik. Hún var sem sagt fíkill í sjúkdóma og alla athyglina sem hún fékk út á það að vera veik. Já, það er greinilega hægt að hafa fíkn í ótrúlegustu hluti. Auðvitað þurfti þessi lyfjadópaða kona að fara í meðferð til að losna við fíknina og samþykkti hún það að lokum eftir grátur og skammir dótturinnar. Ég vona bara að hún fái bata og nái að vera þakklát fyrir heilsuna og skilji að lífið er núna. En um leið velti ég því fyrir mér hvort það séu fleiri þarna úti í sömu sporum og þessi kona.
Jóna Ósk Pétursdóttir