Hver vill ekki lifa kærleiksríku og innihaldsríku lífi?
Hvað gerum við dags daglega til að svo geti orðið?
Flækjast áhyggjur, ótti, vinnan, fjölskyldan, áhugamálin, skyldurnar eða jafnvel eitthvað annað fyrir okkur? Þurfum við oftar að forgangsraða í lífi okkar, hreinlega taka ákvörðun um það fyrir hvað við viljum standa?
Í myndbandinu hér að neðan segir Oprah Winfrey að það sé aðeins um tvennt að velja þegar kemur að tilfinningum – kærleikur eða ótti. Eflaust hefur hún á réttu að standa því við erum ekki alltaf meðvituð um hvaða tilfinningar ráða för þegar við tökum mikilvægar ákvarðanir, jafnvel þótt við teljum okkur vera það.
Orðið „love“ sem Opruh er tíðrætt um stendur ekki bara fyrir ást eða að elska, því það er samnefnari fyrir kærleika og allt sem rúmast innan þess orðs. Ef við temjum okkur það að lifa kærleiksríku lífi í stóru sem smáu, gefa af okkur, sýna samhug og umhyggju mun okkur ganga betur í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur.
Og jafnvel þótt við séum reið og bitur og teljum á okkur hallað er mikilvægt að umvefja sig kærleika og setja ekki ofan í við aðra að óþörfu. Þannig heiðrum við okkur sjálf og sýnum öðrum virðingu.
(Myndbrotið er úr fyrirlestri sem Oprah Winfrey hélt í Stanford háskóla í Bandaríkjunum í júní 2015).
Þorgrímur Þráinsson