Lífið er ekki alltaf fullkomið enda ekkert í þessum heimi sem kalla má fullkomið.
En við lærum og lifum – og með hærri aldri áttum við okkur oft betur á ýmsu í lífi okkar.
Hér eru 10 atriði sem geta gert líf okkar svo miklu betra
1. Það er ekki fræðilegur möguleiki að þú getir gert öllum til geðs í þessu lífi. Þess vegna skaltu fyrst og fremst hugsa um að gera sjálfri/sjálfum þér til geðs og síðan ástvinum þínum og þeim sem standa þér næst.
Og það er engin ástæða til að vera með samviskubit eða áhyggjur yfir þessu því það eru allir þarna úti uppteknir af því að gera sjálfum sér til geðs.
2. Ekki eyða lífinu í að eltast við röng markmið og vera upptekin/n af röngum hlutum. Þann dag sem þú áttar þig á því að þetta er ekki málið er dagurinn sem þú ferð fyrst að lifa.
3. Enginn er fullkominn. Enginn! Og enginn er heldur fullkomlega sáttur við það sem hann hefur fengið úthlutað í þessu lífi. Um leið og það síast inn hjá þér ertu um leið laus við samanburð og dómhörku.
Í sannleika sagt þá er það virkilega frelsandi að tileinka sér þessa hugsun.
4. Það er nú allt of oft þannig að enginn sér allt það góða og rétta sem þú gerir – en allir sjá það sem þú gerir rangt. Þegar þú áttar þig á því muntu gera hlutina af réttri ástæðu og upplifa meiri ánægju og gleði af því.
5. Heilsan er eitt það dýrmætasta sem við eigum og það verður okkur meira og meira ljóst með hærri aldri. Streita, ótti og áhyggjur geta skert lífsgæðin og stytt líf okkar. Og það kemur kannski á óvart en þessir þrír þætti hafa meira skemmandi áhrif á heilsuna en allur sá ljúffengi matur og drykkur sem þú neitar þér um heilsunnar vegna.
Hamingjan og friður í sál er besta meðalið og besta forvörnin.
6. Að streitast á móti því að eldast er eins og að ætla sér hið ómögulega. Njóttu þess frekar að eldast – það eru nefnilega ekki allir svo lánsamir að fá það. Líkami þinn er að breytast… en hann hefur líka verið að breytast allt þitt líf svo í sjálfu sér er þar engin breyting á. Ekki eyða dýrmætum tíma þínum í að reyna að snúa þessu ferli við því það hefur ekkert upp á sig.
Reyndu að breyta hugsunarhætti þínum og sjá fegurðina í þessum nýju aðstæðum.
7. Þú munt líklega á einhverjum tímapunkti sjá eftir öllum þeim stundum sem þú eyddir í að gagnrýna líkama þinn af mikilli dómhörku. Því fyrr sem þú nærð að sætta þig við það hylki sem sál þín býr í því betra.
Líkami þinn er vissulega algjört furðuverk og magnað fyrirbæri en hann skilgreinir þig ekki sem einstakling eða hver þú ert.
8. Fjölskylda og góðir vinir eru eitt það mikilvægasta og besta sem við eigum. Þetta tvennt er mun dýrmætara en öll auðæfi heimsins.
Eyddu tíma með fólkinu þínu og ræktaðu vini þína. En veldu líka vinina af kostgæfni og losaðu þig við þá sem eitra líf þitt.
9. Okkur er aðeins úthlutað ákveðnum tíma hér á jörðinni – en ef við eyðum lífi okkar í það að berjast endalaust á móti straumnum getur lífið orðið eins og lífstíðardómur.
Lífið á ekki að vera eins og eitthvað skylduverkefni heldur á það miklu frekar að vera eins og ævintýri. En hvernig við nálgumst þetta er algjörlega undir okkur sjálfum komið.
10. Og af því að lífið er stutt ættum við alltaf að drekka besta vínið okkar, nota sparistellið þegar okkur langar til og ekki geyma allt fallega dótið þar til seinna. Það er engin trygging fyrir morgundeginum því enginn veit sína ævina fyrr en öll er.
Étum, drekkum, verum glöð og lifum lífinu lifandi!