Það getur skipt miklu máli upp á góða andlega líðan að velja vel það fólk sem þú umgengst.
Sumir hafa betri áhrif á okkur en aðrir – og sumir draga orku frá okkur á meðan aðrir virka eins og orkuskot. Þess vegna er betra að reyna að útiloka það fólk úr lífi þínu sem hefur neikvæð áhrif á þig.
Getur verið áskorun að takast á við
En því miður er það ekki alveg svo einfalt að það sé alltaf hægt því stundum verðum við að umgangast fólk sem við vitum að hefur ekki góð áhrif á okkur. Þetta geta verið vinnufélagar, tengdafólk, ættingjar eða einhverjir aðrir. Mikilvægt er láta þetta fólk ekki draga sig niður og sjúga úr sér alla orku þótt það geti vissulega stundum verið áskorun að takast á við.
Hér eru nokkrar leiðir til að halda í jákvæðnina innan um neikvætt fólk
1. Vertu þakklát/ur fyrir allt það sem gengur vel hjá þér
Ekki gleyma að þakka fyrir allt það smáa sem gerir lífið svo gott. Láttu alla sem þér þykir vænt um vita hversu þakklát/ur þú ert fyrir að hafa þá í lífi þínu.
Þakklæti getur gengt veigamiklu hlutverki í því að minna okkur á að lífið er ekki bara það umhverfi og þær aðstæður sem við erum í þegar neikvæðir einstaklingar gera okkur lífið leitt. Ekki gleyma að lífið er svo miklu meira en það.
2. Ekki taka því persónulega
Þótt einhver sé leiðinlegur við þig og láti asnalega skaltu fyrir alla muni ekki taka því persónulega. Margir láta það bitna á öðrum þegar þeim líður illa og eiga við erfiðleika að stríða svo hafðu í huga að framkoma þeirra orsakast af reiði, ótta og óöryggi.
Þetta snýst sem sagt fyrst og fremst um þá en ekki þig – svo ekki taka það inn á þig.
3. Mundu að hver hefur sinn djöful að draga
Allir ganga í gegnum einhvers konar erfiðleika í lífinu og sumir dröslast um með þungan bakpoka af alls kyns vandamálum. Við vitum aldrei hvað næsti maður er að kljást við. Þetta er gott að hafa í huga þegar einhver er erfiður og leiðinlegur við þig.
Ef einhver sýnir þér hroka er ekkert ólíklegt að viðkomandi sé að breiða yfir eitthvað. Reyndu því að láta það sem vind um eyru þjóta.
4. Gefðu sjálfri/sjálfum þér tíma til að vera ein/n til að styrkja þig
Ekki vanmeta tímann sem þú átt ein/n með hugsunum þínum. Að gefa sjálfum sér tíma til að hugsa og hugleiða getur gert okkur mjög gott. Með því styrkir þú sjálfa/n þig andlega og ert betur undir það búin/n að eiga við neikvætt fólk.