Þar sem flestir, ef ekki allir, nota í dag lyklaborð á tölvum og snjallsíma til að slá allar upplýsingar inn sér maður sjaldan orðið blað og blýant.
En það er samt nokkuð sem við ættum greinilega að endurskoða.
Hærri einkunnir
Rannsókn sem birt var í Psychological Science sýndi fram á að þeir nemendur sem einungis studdust við tölvur í námi sínu og notuðu lyklaborðið á tölvunni til að taka niður glósur fengu lægri einkunnir á prófum en þeir sem tóku glösur með því að handskrifa þær. Þá þykir einnig sýnt fram á að tölvur trufli frekar nám þar sem nemendur geta vafrað inn á samskiptamiðla og þar með dreift athyglinni frá náminu.
Margar ólíkar stöðvar heilans
Það að handskrifa virkjar margar ólíkar stöðvar heilans á sama tíma og bætir hæfnina til að hugsa. Þetta gerist hins vegar ekki þegar slegið er á lyklaborðið. Þess vegna telja vísindamenn það afskaplega mikilvægt að börn læri að skrifa.
Sú aukna og margslungna virkni sem á sér stað í heilanum þegar fólk notar blað og penna til að skrifa er líkt við þá heilastarfsemi sem á sér stað þegar leikið er á hljóðfæri. Viljir þú fara alla leið þá telja sérfræðingar allra best að nota tengiskrift.
Rannsókn eftir rannsókn sýnir fram á sömu niðurstöður, þ.e. að það sé heilanum í hag að handskrifa.
Svo næst þegar þú þarft nauðsynlega að muna eitthvað, t.d. hvað þú átt að kaupa í búðinni eða hvar og hvenær þú átt að mæta einhvers staðar, þá skaltu ná þér í blað og blýant og skrifa það niður.