Þeir sem hafa talið það ekki vera skynsamlegt að eiga börn seinna á lífsleiðinni ættu að endurskoða afstöðu sína því ný rannsókn sýnir fram á hið gagnstæða.
Við heyrum gjarnan um hættuna á ýmsum heilsufarslegum kvillum sem aukast þegar konur ákveða að fresta barneignum þar til síðar á ævinni – nú og svo tikkar auðvitað líkamsklukkan.
Ekki hafa samviskubit
En þær konur sem hafa haft eitthvað samviskubit yfir því vali sínu að eignast börn seinna á lífsleiðinni ættu að slaka á og ekki hafa áhyggjur. Sænsk rannsókn sýnir fram á að börn sem eiga eldri mæður geta verið hraustari, hærri og betur menntuð en börn yngri mæðra. En stóra málið er samt að þetta snýst ekki bara um aldur móðurinnar heldur er talið að breyttar samfélagslegar ástæður liggi að baki.
Málið er að iðnvædd samfélög hafa þróast svo hratt að kosturinn við það að fæðast seinna, inn í nýjan heim, geta vegið þyngra en líffræðilega hættan á því að eiga eldri móður. Stórbreytt og bætt heilbrigðisþjónusta og menntunartækifæri vega það þungt í þessu að hitt skiptir minna máli.
Þekkjum frekar ókostina en kostina
Þeir sem stóðu að rannsókninni skoðuðu gögn frá einni og hálfri milljón karla og kvenna sem fæddust í Svíþjóð á árunum milli 1960 og 1991. Í ljós kom að þær mæður sem höfðu frestað barneignum, jafnvel fram á fimmtugsaldur, voru líklegri til að eiga hraustari og hærri börn og líkamlega betur á sig komin. Þá voru þau einnig með hærri einkunnir í skóla og líklegri til að fara í háskóla.
Áhugavert þótti að skoða gögn barna sömu móður sem eru fædd með löngu millibili og jafnvel með tvo áratugi á milli sín í aldri. Börnin sem yngri voru og fæddust þegar móðirin var orðin töluvert eldri voru mun betur menntuð en þau eldri.
Rannsakendur segja flesta vita kostina við það að eiga börn þegar frjósemisskeiðið stendur sem hæst en mun færri viti af þeim kostum sem fylgja því að eiga börn seinna á lífsleiðinni þar sem helst hafi verið talið um ókosti þess.