Fjölskylda okkar og mannleg samskipti geta skipt sköpum í því hvernig við eldumst og hvernig heilsufar okkar er og verður á eldri árum.
Það er afar ánægjulegt til þess að vita að draga megi úr líkum á sjúkdómum eins og Alzheimer með því að eyða tíma með fólkinu sínu.
Minni líkur á elliglöpum
Að rækta og eiga gott samband við börnin sín veitir okkur svo sannarlega hamingju og gleði í dag. En það sem er kannski enn betra er að það að eiga náin tengsl við börnin sín getur gert helling fyrir okkur á eldri árum.
Talið er að gott og náið samband við afkvæmin geti minnkað líkur á elliglöpum um 20 prósent seinna á lífsleiðinni.
Vísindin hafa talað
Breskir vísindamenn hafa komist að því með rannsóknum sínum að foreldrar sem eiga náið samband við unglingana sína sem og fullorðin börn sín séu með betra minni síðustu áratugi ævinnar.
Í niðurstöðum rannsóknarinnar er ástæðan talin sú að sterk fjölskyldubönd styrki veigamiklar tengingar í heila sem veiti ákveðna vörn gegn Alzheimer og öðrum formum elliglapa.
Það er því greinilega til mikils að vinna að halda nánu og góðu sambandi og tengslum við börnin sín.