Þetta er vandamál sem taka þarf á og opna augu almennings fyrir.
En misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum hefur aukist undanfarin ár og þá sérstaklega meðal ungmenna, allt frá ungu fólki og alveg niður í nemendur í grunnskóla. Svo virðist vera sem um nokkurs konar tískufyrirbrigði og breytt neyslumynstur sé að ræða.
Lést aðeins 18 ára gamall
Þann 25. maí síðast liðinn lést ungur drengur, Einar Darri Óskarsson, aðeins 18 ára gamall eftir ofneyslu á lyfinu OxyContin. En lyfið er flokkað sem náttúrulegur ópíumalkaóíði.
Í kjölfarið stofnuðu aðstandendur Einars Darra minningarsjóð í hans nafni, en með honum vilja þeir einblína á forvarnir og varpa ljósi á þann vanda sem misnotkun lyfja er hér á landi.
25 einstaklingar hafa látist á þessu ári
Læknar, lögregla, starfsmenn bráðamóttöku, starfsmenn Landlæknisembættis, sjúkraflutningafólk, SÁÁ og fleiri þekkja af eigin raun þetta vandamál. En því miður er algengt að almenningur og sér í lagi ungmenni geri sér ekki grein fyrir því hversu skaðleg og ávanabindandi þessi lyfseðilsskyldu lyf eru. Neysla slíkra lyfja er hreint út sagt lífshættuleg.
Samkvæmt upplýsingum frá lyfjafræðingi hjá Landlæknisembættinu þann 13. júní 2018 höfðu 25 einstaklingar látist það sem af er þessu ári af völdum fíkniefna og þar af er stór hluti sem lést af völdum lyfseðilsskyldra lyfja á borð við OxyContin.
Minningarsjóður Einars Darra stendur fyrir átakinu #egabaraeittlif þar sem barist er gegn fíkniefnum og þá sérstaklega gegn misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja meðal ungmenna á Íslandi.
Markmið #egabaraeittlif er
Að sporna gegn og draga úr misnotkun fíkniefna með áherslu á lyfseðilsskyld lyf.
Að opna umræðuna um misnotkun lyfja hér á landi.
Að auka þekkingu almennings á eðli og umfangi misnotkunar lyfja.
Að opna umræðuna um skort á meðferðarúrræðum.
Og svona getum við lagt átakinu lið
Til að ná ofangreindum markmiðum hefur verið hrundið af stað átaki sem felst meðal annars í því að minningarsjóðurinn er að gefa armbönd sem eru kærleiksgjöf – og þeir sem standa að minningarsjóðnum vilja biðja alla þá sem geta að taka af sér mynd með armbandið og deila á samfélagsmiðlum og setja #egabaraeittlif með myndinni til að halda umræðunni gangandi. Armböndin eru einnig hugsuð til þess að ungmenni sem þau bera hugsi sig tvisvar um áður en þau noti lyf og/eða fíkniefni. Armböndin fást gefins á pósthúsum.
Einnig er verið að selja peysur og húfur til styrktar átakinu. Þessar vörur eru til sölu hjá 4 You Iceland í Hafnarfirði, Galleri Ozone Akranesi og versluninnin Smart í Vestmannaeyjum. Peysurnar kosta 5.500 krónur í barnastærðum og 6.500 fyrir fullorðna. Húfurnar kosta 2.000 krónur.
Þá hefur einnig verið opnaður styrktarreikningur þar sem hægt er að leggja inn frjáls framlög til styrktar átakinu og munum að margt smátt gerir eitt stórt. Reikningsnúmerið er 552-14-40504, kennitala: 510718-1510.