Hraðinn í nútímasamfélagi er mikill og margir eru sífellt þreyttir og örmagna. Okkur finnst við þurfa að standa okkur á öllum vígstöðvum og lífið verður sem endalaus barátta.
Fórnirnar geta orðið of miklar
Örmögnun er orðin nokkurs konar eðlilegt viðmið í menningu okkar. Við vinnum mikið og æfum mikið, þ.e. við stundum mikla líkamsrækt, og hvílumst þar af leiðandi oftar en ekki of lítið.
Alveg frá því við erum börn erum við vön að heyra að það þurfi að vinna vel og mikið til að ná árangri og að við þurfum að færa fórnir til þess að njóta velgengni. En þegar einblínt er á það geta fórnirnar orðið svo miklar að heilsan situr algjörlega á hakanum og meira að segja þótt við æfum mikið – því það er líka hægt að gera of mikið af því.
En er það eðlilegt að vera örmagna?
Að vera krónískt þreyttur er hvorki lykilinn að velgengni né hamingju. Allur þessi hraði og læti eru ekki kapphlaup í áttina að því að vera farsæll, ná langt í lífinu og vera hamingjusamur, heldur frekar kapphlaup í átt að veikindum og ýmis konar líkamlegum og andlegum truflunum. Sérfræðingar sem hafa rannsakað þessa lífshætti kalla þetta hraðasjúkdóminn. Það er sífellt verið að drífa sig og flýta sér og sjaldan staldrað við.
Samkvæmt sérfræðingum eyðum við víst allt of miklum tíma í að gera í stað þess að einbeita okkur að því að vera – og svo vinnum við allt of mikið en leikum okkur of lítið.
Speki Dalai Lama
Sumir eru reyndar svo lánsamir að kunna þetta og eru ekki í þessu stöðuga kapphlaupi. Dalai Lama er einmitt einn þeirra lánsömu og þegar hann var spurður að því hvað það væri sem kæmi honum mest á óvart við mannkynið var svarið þetta:
„Maðurinn sjálfur. Vegna þess að hann fórnar heilsunni til þess að geta eignast peninga. Síðan fórnar hann peningum til þess að ná aftur heilsu. Og þá er hann svo óþreyjufullur að bíða eftir framtíðinni að hann nýtur þess ekki að vera hér og nú; sem gerir það að verkum að hann lifir hvorki í núinu né í framtíðinni heldur lifir hann eins og hann muni aldrei deyja og síðan deyr hann án þess að hafa nokkurn tímann lifað.“
Virkilega umhugsunarvert, ekki satt!