Marengskökur og tertur eru alltaf jafn vinsælar og oftast það fyrsta sem klárast á veisluborðum. Og kannski ekki skrýtið þar sem marengsinn bráðnar svo yndislega í munni og sætt bragðið kitlar bragðlaukana.
Það gerist varla betra en þegar marengs, rjómi, súkkulaði og fersk ber koma saman – hvað þá þegar kókosbollur bætast við!
Hér er uppskrift að Kókosbolludraumi úr bókinni Matargleði Evu frá Sölku
Marengsbotn
3 eggjahvítur 200 g sykur
1 tsk lyftiduft
3 dl Rice Krispies
Aðferð
Þeytið eggjahvítur, bætið sykri út í og stífþeytið.
Myljið Rice Krispies og blandið því og lyftidufti varlega saman við eggjahvíturnar.
Dreifið úr blöndunni á plötu með bökunarpappír.
Bakið við 150°C í 60 mínútur.
Kælið botninn vel áður en þið setjið kremið á hann.
Kókosbollukrem
8 kókosbollur
1⁄2 l rjómi
1⁄2 tsk vanillusykur
3 tsk flórsykur
fersk ber t.d. jarðarber og bláber
Aðferð
Skerið kókosbollurnar í litla bita og dreifið jafnt yfir marengsbotninn.
Þeytið rjóma og bætið flórsykri og vanillu saman við.
Smyrjið rjómanum ofan á botninn.
Skreytið kökuna með ferskum berjum.
Bræðið ef til vill smávegis af súkkulaði í vatnsbaði og dreifið yfir berin, súkkulaðið setur punktinn yfir i-ið.
Njótið!