Er líkaminn að hvísla einhverju að þér?
Þorir þú að hlusta og taka mark á innsæi þínu?
Í augum einhverra gætu þessar spurningar hljómað væmnar og óáhugaverðar, hvorki töff né kúl, bara eitthvað svona „sjálfshjálpar kjaftæði“ sem engu máli skiptir!
Ég skil það vel og það er eðlilegt. Þegar maður gengur í gegnum erfiðleika, hvort sem það eru líkamleg veikindi, óhamingja, andleg veikindi eða eitthvað annað sem okkur líður illa yfir, þá getum við samt neyðst til að fara yfir þessar spurningar og svara þeim á hreinskilinn hátt.
Vildu bara pillu sem gæti læknað
Í Bandaríkjunum starfar læknir sem heitir Dr. Lissa Rankin. Lissa fékk síendurtekið til sín sjúklinga sem leið mjög illa og voru augljóslega veikir. Hún rannsakaði þá og tók blóðprufur en fann ekkert að. En sjúklingarnir voru augljóslega veikir og vildu bara fá pillu sem gæti læknað þá.
Á einhverjum tímapunkti áttaði hún sig á því að það þurfti að víkka út leitina að orsök vandans. Hún lagðist í rannsóknir til að skoða hvaða aðferðir hefðu reynst best, til að hjálpa sjúklingunum sínum. Hún skoðaði vísindagreinar í sálfræði, félagsfræði og læknisfræði og gerði í kjölfarið magnaða uppgötvun.
Hvorki mataræði né hreyfing það mikilvægasta
Niðurstaða Dr. Lissa Rankin var að það sem væri mikilvægast fyrir góða heilsu til lengri tíma væri hvorki mataræði né hreyfing, heldur það að líða vel í hjartanu og sálinni! Hún breytti starfsháttum sínum og í dag fylla sjúklingar sem koma til hennar út ítarlegan spurningalista um líf sitt, sambönd sín og andlega og líkamlega líðan.
Einn daginn fékk hún til sín konu sem virtist algjörlega „meðetta“. Maraþonhlaupari sem nærðist eingöngu á mjög hollu fæði, svaf 8 tíma á nóttu, tók 20 tegundir af bætiefnum á dag, hlýddi lækninum sínum í einu og öllu, en þrátt fyrir þetta leið henni mjög illa og var augljóslega veik.
Eftir að hafa farið yfir svörin við spurningalistanum og átt ítarlegt samtal við konuna kom í ljós að orsök veikinda hennar var að hún var í ofbeldisfullu hjónabandi, óánægð í vinnunni og ekki búin að fyrirgefa föður sínum fyrir það sem hann gerði henni þegar hún var barn.
Ástæðan fyrir mörgum sjúkdómum og erfiðleikum er vanlíðan í hjartanu og sálinni.
En af hverju sættum við okkur við að líða illa?
Mögulegar ástæður fyrir því gætu verið að við viljum þóknast öðrum, af því að við að við höfum tilhneigingu til þess að gera það sem „ætlast“ er til af okkur, við erum hrædd við afleiðingar breytinga og óttumst höfnun. Andleg vanlíðan og ójafnvægi getur auðveldlega valdið líkamlegum sjúkdómum. Við verðum að vera tilbúin að hlusta eftir hvísli líkamans svo hann endi ekki með því að öskra á okkur.
Innsæi okkar (okkar innri rödd) gefur okkur leiðbeiningar um það sem við eigum að gera. Í innsæinu er falinn sannleikurinn í því á hverju við þurfum að halda til þess að okkur líði vel.
Treystum því!
Margrét Leifsdóttir – arkitekt og heilsumarkþjálfi