Friðrika Hjördís Geirsdóttir, eða Rikka eins við þekkjum hana, er á fullu að vinna í nýju heimasíðunni sinni um þessar mundir. „Ég er búin að fá alveg hreint ótrúlega góðar viðtökur frá því að ég fór að leggja kraft í hana“, sagði hún þegar Kokteill heyrði í henni á dögunum.
Alltaf á fullu
„Þessi síða enduspeglar mín helstu áhugamál, gómsætar uppskriftir, pistla um heilsu, jákvæðar hugsanir og smá garðyrkju. Svo er ég að vinna í öðrum björtum verkefnum sem ég get lítið sagt frá akkúrat eins og staðan er núna“ bætir hún við og brosir.
Já, það er alltaf eitthvað spennandi og skemmtilegt að gerast hjá þessari flottu konu sem var meira en til í að vera með í 10 hlutum þessu vikuna.
Hér eru 10 hlutir sem þú vissir ekki um Rikku
Fullt nafn: Friðrika Hjördís Geirsdóttir
Aldur: 38 ára
Starf: Fjölmiðlakona
Maki: Enginn
Börn: Gunnar Helgi 9 ára og Hinrik Hrafn 8 ára
Hver var síðasti facebook status þinn?
Það var status í tilefni afmæli sonar míns sem hljómaði svona 🙂
Þessi litli stríðnispúki fagnar 8 árum í dag. Það er vandfundið að finna meiri húmorista og gleðipinna en þennan hjartahlýja og brosmilda dreng.
Hver er frægasta persóna sem þú hefur hitt?
Ég vinkaði einu sinni Kim Jong, einræðisherra Norður Kóreu þegar ég var á ferðalagi þar í fyrra. Ég var svo heppin að fá að vera áhorfandi á hersýningu í tilefni 70 ára afmæli Kommúnistaflokksins þar í landi. Ætli hann sé ekki svona frægasta persóna sem ég hef komist nálægt því að hitta.
Hver var fyrsta atvinna þín?
Ætli það hafi ekki verið afgreiðslustörf í Benetton á Skólavörðustígnum á sínum tíma eða leikfangabúðinni í sömu götu. Ég tók starf mitt mjög alvarlega þrátt fyrir að vera ekki nema í kringum 6 ára aldurinn.
Kaffi eða te?
Oftast er það nú kaffi, stundum espresso með ferskum sítrónusafa eða cappuccino með sojamjólk. Stundum fæ ég mér te á kvöldin og þá finnst mér Aveda teið virkilega gott.
Hvernig líta kosífötin þín út?
Svartar leggings, hvítur t-shirt, kósý kasmírpeysa og Ugg-inniskór
Hvað er í töskunni þinni?
Ég er búin að vera óvenju meðvituð um að vera með sem minnst drasl í töskunni þessa dagana og er því bara með veskið mitt, lykla, varasalva og símann minn. Áður fyrr var ég nánast með allt nema sjálfa mig ofan í töskunni, það er því mikill léttir að taka upp þennan nýja vana.
Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju?
Án efa er það að ganga frá þvotti. Mér finnst ekkert leiðinlegt að þvo þvott eða brjóta hann saman, mér finnst ekki einu sinni leiðinlegt að strauja en ég veit ekki hvað það er við að ganga frá þvottinum.
Hvað er það sem þú borðar aldrei og munt aldrei borða?
Hmmm… ja, mér er illa við að vera með einhverjar yfirlýsingar en ég myndi seint smakka óhefðbundið kjöt af sjálfdauðu dýri og væntanlega þá heldur ekki gera það að vana mínum.
Það er venjulegt þriðjudagskvöld. Hvað ertu með í kvöldmatinn?
Ja, ef það væri nú bara eitthvað sem héti venjulegt á mínu heimili þá væri það ósköp notalegt. En ætli það sé ekki bara steiktu kjötbollur húsmóðurinnar og spagettí.
Hvenær og hvar ertu hamingjusömust?
Ég elska að vera heima hjá mér hvort sem er ein eða með fjölskyldu og vinum. Annars líður mér einna best í íslenskri sveit og þá helst í einhverri útivist, uppi á fjalli eða í einhverjum hamagangi.
Sjáðu hvað Rikka er að sýsla á rikka.is
Mynd af Rikku er tekin af Eyþóri Árnasyni.
Sigga Lund