Okkur langar í þessa nýju vettlinga sem eru hannaðir sérstaklega fyrir GÖNGUM SAMAN. Það er nú bara þannig á Íslandi að maður getur þurft að nota vettlinga allt árið. En þessir vettlingar henta einmitt einstaklega vel fyrir íslenskt sumarveður.
Vettlingarnir hannaðir hjá Farmers Market
Farsælt samstarf Göngum saman og íslenskra hönnuða hefur skilað fallegri og fjölbreyttri hönnun – skammt er síðan Aurum kynnti silfurarmband sem hannað var fyrir Göngum saman og nú er það Bergþóra Guðnadóttir í Farmers Market sem kynnir íslenska ullarvettlinga.
Styrkir til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini
„Ein af félagskonum setti sig í samband við mig og fannst mér mjög gaman að fá tækifæri til að vinna með þessum góða hópi og um leið leggja mitt að mörkum fyrir þetta mikilvæga málefni. Styrkir til grunnrannsókna á brjóstakrabbameini skipta máli og félagið er mjög öflugt. Allt fé sem safnast í félagið fer í styrktarsjóð og öll vinna hjá félaginu er unnin í sjálfboðaliðastarfi. Þetta eru miklar kjarnakonur sem þarna standa að baki,“ segir Bergþóra.
Hvernig kom hönnun á vettlingum til? Er einhver sérstök pæling sem liggur þar að baki?
„Tilhugsunin um hlýjar hendur þótti mér falleg og viðeigandi, fyrir utan að segja má að vettlingar séu nokkurs konar staðalbúnaður fyrir Ísland hvort heldur sem er fyrir vetur eða sumar. Mann vantar alltaf vettlinga og svo eru þeir líka tilvalin tækifærisgjöf þar sem góð samviska fæst í kaupbæti. Vettlingarnir eru með mynstri sem er orðið nokkuð einkennandi fyrir Farmers Market en í áranna rás höfum við útfært mynstrið í peysur, sokka, barnagalla og fleira. Ég fékk mína góðu samstarfsaðila til margra ára hjá prjónastofu Glófa til að framleiða vettlingana fyrir okkur.“
Vettlingarnir verða einnig til sölu í versluninni AURUM, Bankastræti 4 og í árlegri Mæðradagsgöngu félagsins sem fram fer þann 8. maí víða um land.