Það er alltaf jafn gaman að prófa sig áfram í eldhúsinu með nýja rétti og uppskriftir og er meðlæti þar engin undantekning.
Hjá mér eru kartöflur af öllum gerðum og í ýmsum útgáfum í miklu uppáhaldi. Þessar kartöflur hér eru með þeim betri og eru á lista fjölskyldunnar yfir uppáhalds meðlætið.
Einfalt og hrikalega gott
Þessi uppskrift er skemmtilegt „tvist“ á hina sígildu bökuðu kartöflu. Þetta er afar einfalt í framkvæmd en alveg hrikalega gott og hentar einstaklega vel með kjöti eins og nauti eða lambi.
Það sem þarf:
Meðalstórar kringlóttar kartöflur
Ólífuolía
Maldon salt
Pipar (mulinn)
Aðferð:
Setjið kartöflurnar í pott og sjóðið þar til þær eru mjúkar.
Setjið ólífuolíu á bökunarplötu og dreifið lauslega úr henni yfir plötuna.
Takið kartöflurnar úr pottinum án þess að skræla og raðið þeim á plötuna – hafið gott bil á milli þeirra.
Takið kartöflustappara (eða annað áhald, jafnvel botn á glasi) og klessið kartöflunar niður. Ekki samt klessa þær alveg í mauk, heldur látið þær líkjast stórum, grófum og þykkum smákökum.
Takið ólífuolíu og penslið hverja kartöflu vel með olíunni.
Dreifið vel af Maldon salti yfir kartöflurnar og piprið að lokum. Einnig má bæta ferskum kryddjurtum við ef vill.
Setjið karftöflurnar inn í 200° heitan ofn og bakið í 20 – 25 mínútur eða þar til þær eru gullnar, stökkar og kraumandi.
Takið út úr ofninum og njótið!
Jóna Ósk Pétursdóttir – kokteillinn@gmail.com