Súkkulaði og lakkrís er fullkomin blanda enda óteljandi tegundir til af alls kyns góðgæti þar sem þessu tvennu er blandað saman.
Þessa rosalega girnilegu uppskrift að lakkrís- og súkkulaðiköku gaf hún Lilja Katrín á blaka.is okkur.
Þetta er auðvitað bara dásemd fyrir svona súkkulaði og lakkrísgrísi eins og okkur.
Það sem þarf
Kaka
- 225 gr dökkt súkkulaði
- 150 gr smjör
- 3 stór Nesbú-egg
- 150 gr sykur
- 150 gr Kornax hveiti
- 1 tsk vanilludropar
- 1/2 tsk sjávarsalt
- 2-3 msk lakkrísduft frá Johan Bülow
Krem
- 75 gr smjör
- 100 gr síróp
- 75 gr sykur
- 24 gr kakó
- 2 tsk vanilludropar
- 300 ml rjómi
- 2 msk lakkrísduft frá Johan Bülow
Aðferð
Kaka
- Hitið ofninn í 175°C og setjið bökunarpappír í kassalaga form þannig að pappírinn kemur aðeins upp með köntunum svo auðveldara verði að fjarlægja kökuna úr forminu.
- Bræðið súkkulaði og smjör saman í potti eða örbylgjuofni. Leyfið blöndunni aðeins að kólna og hrærið síðan egg og sykur saman við.
- Blandið síðan hveiti og vanilludropum saman við og því næst lakkrísduftinu og saltinu. Ég setti þrjár matskeiðar af duftinu því ég vil hafa mikið lakkrísbragð.
- Setjið deigið í formið og bakið í 15 til 20 mínútur í miðjum ofninum. Leyfið kökunni að kólna áður en kremið er sett á.
Krem
- Setjið öll hráefni í pott nema lakkrísduft og leyfið þessu að malla yfir lágum hita í 30 til 45 mínútur, eða þar til blandan er orðin þykk. Hér þarf ekki að hræra mikið í blöndunni eftir að hún nær suðu.
- Takið pottinn af hellunni og blandið lakkrísduftinu út í. Hellið yfir kökuna og leyfið kökunni að standa í ísskáp í að minnsta kosti klukkustund. Best er hún ef hún fær að standa í ísskáp yfir nótt áður en hún er étin upp til agna.