Það er alltaf nóg að gera hjá kjarnakonunni Björk Eiðsdóttur, ritstjóra MAN, en hún gaf sér samt tíma til að vera með í „10 hlutum“ þessa vikuna.
En við hvað er Björk að sýsla þessa dagana?
„Þessa dagana bíð ég spennt eftir apríl tölublaði MAN úr prentsmiðju. Við fórum í örlitla útlitsyfirhalningu og áskriftarátak á dögunum og því hefur verið töluvert mikið að gera en afraksturinn er á leið til lesenda í vikunni og við erum stoltar og spenntar,“ sagði Björk þegar Kokteill heyrði í henni fyrir skemmstu.
Hér eru 10 hlutir sem þú vissir ekki um Björk Eiðsdóttur
Fullt nafn: Björk Eiðsdóttir
Aldur: 41 árs
Starf: Ritstjóri MAN
Maki/Kærasti: Karl Ægir Karlsson
Börn: Blær, Birta og Eiður Breki
Hver var síðasti facebook status þinn?
„Er með andlegan blaðamanna bóner! Fokk-sjitt-fokk!“ Póstað 3.4.2016 – þið vitið hvers vegna.
Hver var fyrsta atvinna þin?
Fyrsta launaða starfið var í vegavinnu, nánar tiltekið við Vesturlandsveginn. Það starf var fengið í gegnum klíku, ekki út á hæfileika.
Kaffi eða te?
Kaffi alltaf. Frekar vatn en te.
Hvernig líta kósífötin þín út?
Síð og víð hettupeysa verður oftast fyrir valinu – mér einni til ánægju og yndisauka. Hef fengið kvartanir en læt þær sem vind um eyru þjóta.
Hver er frægasta persóna sem þú hefur hitt?
Sean Penn og ég tapaði kúlinu gjörsamlega – hitti hann á 101 og kom ekki upp orði – tók bara í spaðann á honum, brosti frosnu brosi og hélt fast þar til hann reyndi að losa sig. Það skal tekið fram að ég er einlægur aðdáandi og er töff gagnvart öllum öðrum stórstjörnum.
Hvað er í töskunni þinni?
Kortaveski, gloss, hleðslutæki, tyggjó og mér eru allir vegir færir!
Hvað er leiðinlegasta húsverkið þitt og af hverju?
Að ganga frá þvotti! Verkefnið sem er varla hægt að ráða neinn í en enginn vill sinna.
Hvað er það sem þú borðar aldrei og munt aldrei borða?
Ég borða ekki fisk – nema harðfisk – þetta ætlar ekki að breytast. Ég er stöðnuð í matarsmekk. Dæmið að vild.
Það er venjulegt þriðjudagskvöld. Hvað ertu með í kvöldmatinn?
Hakk og spagettí virkar ef ég nenni ekki að elda og öll börnin borða. Hið fyrrnefnda gerist reyndar alltof oft.
Hvenær og hvar ertu hamingjusömust?
Þegar ég samþykki síðustu síður MAN fyrir prentsmiðju, þegar hreint er á rúmum, krakkarnir glaðir og þvottakarfan tóm! Það er oftast ekki erfitt að gleðja mig en auðvitað er ég líka bullandi hamingjusöm í Leifsstöð á leið erlendis í góðum félagsskap og með fögur fyrirheit.
Tékkaðu HÉR á MAN
Sigga Lund