Uppistandarinn og leikkonan Amy Schumer er síður en svo ánægð þessa dagana og snýr sú óánægja að glanstímaritinu Glamour.
En í síðustu viku kynnti tímaritið fyrstu útgáfu sína af blaði tileinkuðu konum í yfirstærð eða „Plus Size“.
Hvað er yfirstærð?
Á forsíðu blaðsins má finna nafn Amy ásamt m.a. leikkonunni Melissu McCarthy og söngkonunni Adele. Allt glæsilegar konur. En málið snýst ekki um það heldur er Amy afar ósátt við að hún sé talin í yfirstærð – en í blaðinu er sjónum beint að konum í stærð tólf og upp úr. Amy segist hins vegar vera í stærð sex til átta, sem eru afar algengar stærðir.
Þurfum við yfirhöfuð að tala um yfirstærð?
Þá bendir leikkonan á að henni finnist ekkert að því að vera í yfirstærð og það að vera heilbrigður skipti öllu máli. Og í Bandaríkjunum teljist stærð 16 vera yfirstærð. Hún er afar ósátt við að vera sett í þennan hóp án þess að við hana hafi verið rætt eða hún látin vita. „Hvað með ungar stúlkur sem sjá líkamsvöxt minn flokkaðan sem yfirstærð“, spyr hún. „Hvað hugsa þær?“ Það er ekki hægt að neita því að það gefur ungum stúlkum ekki rétta mynd.
En stóra spurningin er samt sú af hverju tímaritinu finnst þörf á því að gera sérstakt blað fyrir konur í stærri stærðum. Er þetta tal um „Plus Size“ ekki orðið úrelt og kominn tími til að sleppa því?
Væri ekki nær að tímaritin sinntu öllum lesendum sínum í einu og sama blaðinu? Konur koma jú í öllum stærðum og gerðum!
Umfjöllunin birtist á huffingtonpost.com