Hver segir að karlmenn þurfi að hafa hár til þess að vera svalir og flottir?
Enginn! Því það klæðir nefnilega marga menn afar vel að vera hárlausir.
Sjálfsöruggari og sterkari
Rannsóknir hafa leitt í ljós að hárlausir karlmenn þykja karlmannlegri, öflugri og sterkari en hárprúðari menn. Staðreyndin er víst sú að konum finnst karlmenn með rakað höfuð vera sjálfsöruggari.
Það er því algjör óþarfi að fara á taugum þótt hárunum sé farið að fækka og samkvæmt þessu er greinilega eina vitið að raka það bara allt af.
Og alls ekki greiða yfir eða fá sér hártopp – það finnst engum flott í dag.
Hver er ástæðan?
Þótt ástæðan fyrir því af hverju konum finnst hárlausir karlmenn vera kynþokkafyllri sé ekki alveg á hreinu þá eru engu að síður ýmsar getgátur uppi. Ein er sú að í stað þess að taka fyrst eftir hári mannsins sjái konan í staðinn fyrst augun og með því hafi maðurinn tækifæri til að hafa meiri áhrif á konuna.
Talið er að um fimmtugt hafi 85 prósent karlmanna upplifað töluvert hárlos en sumir eru þó ekki nema rúmlega tvítugir þegar hárið fer að þynnast all verulega. En í dag þykir ekkert tiltökumál að sjá hárlausa karlmenn á öllum aldri og ættu þeir að taka því fagnandi þar sem það þykir bara svalt. Sjáið bara t.d. leikarana Bruce Willis og Dwayne Johnson!