Það er fátt betra en heimatilbúið góðgæti og alveg frá því ég var krakki hefur mér fundist heimagerðar karamellur alveg einstaklega góðar.
Þessir nammibitar líta afar girnilega út en það er hún Lilja Katrín á blaka.is sem gefur okkur uppskriftina að þessum girnilegu karamellu- og Rice Krispies bitum.
Bitarnir eru frábærir til að eiga um helgar til að gæða sér á og auðvitað tilvaldir í afmælisveislur.
Það sem þarf
Botn
3 msk smjör
1 poki litlir sykurpúðar (Lilja Katrín kaupir sína í Söstrene Grene)
1/3 bolli karamellusósa
3 ½ bolli Rice Krispies
100 gr Súkkulaðibögglar (frá Freyju)
Karamellubráð
4 msk smjör
½ bolli sæt mjólk (sweetened condensed milk sem fæst í asískum matvöruverslunum)
18 Freyju karamellur
Aðferð
Botn
Takið 20 sentímetra kassalaga form og setjið smjörpappír í það þannig að pappírinn komi aðeins upp á hliðunum.
Bræðið smjör, sykurpúða og karamellusósu saman í potti yfir meðalhita. Hrærið endrum og eins.
Þegar þetta hefur bráðnað saman takið þá pottinn af hellunni og setjið Rice Krispies og Súkkulaðibögglana saman við. Hrærið vel saman.
Skellið blöndunni í formið og þrýstið henni í botninn, t.d. með glasi.
Setjið þetta síðan inn í ísskáp á meðan þið búið til karamellubráðina.
Karamellubráð
Bræðið smjör í potti yfir meðalhita.
Bætið sætu mjólkinni saman við smjörið og hitið hana aðeins en ekki láta sjóða.
Bætið karamellunum út í, lækkið hitann og hrærið þar til karamellurnar eru bráðnaðar.
Hellið bráðinni ofan á botninn á meðan hún er heit og dreifið úr henni.
Setjið síðan inn í ísskáp í um klukkustund og skerið að lokum í bita.
jona@kokteill.is