Hjónin Gunnar Guðbjörnsson og Ólöf Breiðfjörð eru miklir sælkerarar og listakokkar. Þau bjuggu lengi vel erlendis, þar sem Gunnar starfaði sem óperusöngvari, og hafa því kynnst ólíkri matarmenningu milli landa.
Páskalambið
Ólöf segir Gunnar þó vera aðal kokk heimilisins og hér deilir hann með okkur uppskrift að páskalambinu, sem þetta árið var á borðum fjölskyldunnar á föstudaginn langa.
Uppskriftin er fengin hjá samstarfskonu Ólafar, en hún er úr bókinni Hollt og hátíðlegt eftir Guðrúnu Jóhannsdóttur.
Að þessu sinni notaði Gunnar 2 lítil læri í uppskriftina.
Það sem þarf
4 lambaskanka eða 2 lítil lambalæri
250 gr jarðarber
1 væna steinselju- eða sellerírót
2 gulrætur
2 rauðlauka
4 skallottlauka (eða annað)
lúkufylli af ferskri myntu
1 dl eplaedik
1 dl trönuberjasafa
4 soðnar kartöflur
salt og pipar
Aðferð
Nuddið lambaskankana með eplaediki og saltið og piprið. Komið fyrir í eldföstum potti með loki (eða í skúffu með álpappír yfir).
Skerið grænmetið og jarðarberin frekar gróft og setjið í pottinn.
Hellið afganginum af edikinu og trönuberjasafanum út á, saltið og piprið ögn meira og stráið svo saxaðri myntu yfir að lokum. En ekki nota öll jarðarberin því það þar líka að setja þau og ferska myntu yfir áður en borið er fram.
Setjið lokið á pottinn og bakið við 160 gráður í um 6 tíma.
Þegar 30 mínútur eru eftir af eldunartímanum setjið þá gróft brytjaðar soðnar kartöflur út í pottinn.
Takið út úr ofninum og stráið niðurskornum jarðarberjum og ferskri myntu yfir til skrauts áður en rétturinn er borinn fram.
Njótið!
Gunnar Guðbjörnsson