Avókadó hefur fest sig í sessi í matarvenjum okkar og margir sem borða avókadó nokkrum sinnum í viku eða á hverjum degi.
Lárperan er stútfull af góðri fitu og er sérstaklega góð fyrir hjartaheilsuna. Hún hjálpar meðal annars til við að lækka slæma kólesterólið, kemur reglu á blóðsykurinn og minnkar bólgur í líkamanum.
Fullkominn morgunverður
Og hér er lárperan með bökuðu eggi. Þetta er eiginlega hinn fullkomni morgunverður… já eða hádegisverður.
Egg eru líka rík af góðum næringarefnum, próteinrík og innihalda fullt af vítamínum.
Það sem þarf
1 avókadó
2 egg
sjávarsalt og nýmulinn pipar
gott er að bragðbæta með paprikudufti, túrmerikdufti eða Cayenne pipar – og gera þetta enn hollara
Aðferð
Hitið ofninn að 225 gráðum.
Skerið avókadó til helminga og takið steininn úr.
Skafið aðeins innan úr í kringum gatið eftir steininn.
Setjið avókadó helmingana á bökunarplötu eða í lítið eldfast mót og þrýstið þeim niður þannig að þeir velti ekki.
Brjótið 2 egg og setjið eitt egg í hvorn helming.
Saltið og piprið – og notið papriku, túrmerik og Cayenne pipar ef vill.
Setjið inn í ofn bakið í 15 til 20 mínútur.
Þegar þetta er tekið út úr ofninum má svo líka bæta ýmsu góðgæti við, eins og t.d. beikonbitum, tómötum, graslauk eða það sem hugurinn girnist.
Sjáðu hér í myndbandinu hvernig þetta er gert
jona@kokteill.is